Espergræde. Eintal ekki samtal

Ég var að hugsa það í gær að ég verð að muna að ég skrifa Kaktusinn fyrir sjálfan mig og engan annan. Það er enginn að lesa yfir öxlina á mér. Það hefur nefnilega komið fyrir að ég hef freistast til þess, þegar einhverjir gúbbar, eða gúbbur, hafa verið að skrifa mér bréf með athugsemdum, að ég fer að hugsa til þeirra þegar ég skrifa. Ég hef íhugað að svara  athugasemdum og það er auðvelt að freistast til þess. Manni sárnar víst þegar  alókunnugt- eða hálfókunnugt fólk mokar yfir mann svívirðingum (kannski væri það enn verra ef aursletturnar kæmu frá mínu fólki). En ég er ekki í samtali við neinn, ég er á eintali.  Kaktusinn er mín daglega æfing í íslensku og skráning daganna.

Ég var eiginlega dálítið ánægður með afköst mín í París. Mér tókst ýmislegt. Meðal annars las ég margar bækur; tvær bækur eftir Elizabeth Strout, eina eftir Amos Oz og byrjaði annarri. Fína barnabók eftir höfund sem ég man ekki hvað heitir og aðra bók eftir enska konu sem ég man ekki heldur hvað heitir (ég er fyrrum útgefandi og oft skiptir mig engu máli hvað bækurnar heita og hvað höfundarnir heita, ég les bara.) Eftir veruna í París var ég að hugsa hvað drífur mig áfram. Því keppist ég alltaf við? Að hverju keppi ég? Ekki eru það peningar.

ps ég læt fylgja mynd frá París til minna mig á þá góðu daga sem ég átti þar.

pps. Á meðan ég skrifa þetta dettur inn tölvupóstur sem ég hef enn ekki lesið með yfirskriftinni: Tilgangur lífsins. Það á vel við. Nú fer ég að lesa þessa bréfsendingu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.