Espergærde. Afbrigði númer 205

Þegar ég sat í gær ásamt félaga mínum á ítalska veitingastaðnum Il Divino hér í Espergærde rifjaðist upp fyrir samtal sem ég átti akkúrat á þessum sama veitingastað fyrir nokkru. Þá hafði ég hitt annan mann sem var í heimsókn, en hann er eyjabúi, sem sagt hann býr á lítilli eyju úti fyrir ströndum Svíþjóðar. Hann er ástríðusafnari og safnar ákveðinni tegund af skordýri sem ég man bara ekki hvað heitir. Þessi skordýrategund er í mörgum afbrigðum og á eyjunni hans eru skráð 204 afbrigði.

Hann hefur fundið og varðveitt, í lítilli þar til gerðri öskju með glerloki, 202 afbrigði af skordýrinu. Tvö afbrgiði hefur hann ekki fundið enn. Safnið geymir hann inni á skrifstofu sinni sem hann hefur inni á heimilinu. Sýnishornin eru fest á títuprjón sem stungið er í gegnum kroppinn á dýrinu og þannig eru þau fest á inni í öskjunni með glerlokinu. Hann notar mikinn tíma í safn sitt, skoðar það aftur og aftur í gegnum smásjá og ekki síst notar hann dagana til að sitja tímunum saman úti í náttúrunni, á klettasnös eða við blómaengi, þar sem hann vonast til að koma auga á afbrigði númer 203.

Það hefur liðið æ lengri tími milli þess sem hann finnur nýtt afbrigði eftir því sem safnið hefur stækkað. Fáir skilja hvers vegna hann notar nær allan sinn frítíma í þessa litlu pöddu. Fólk hæðist góðlátlega að honum þegar hann er staðinn að verki við skordýrarannsóknir sínar.

Svo gerðist það einn dag, þegar hann hafði setið dagspart aleinn upp á litlum hól, að hann sá þetta skordýr sem hann þekkti svo vel koma skríðandi í gegnum lágróðurinn. Hann var meira að segja farinn að þekkja hljóðin þegar það baksaði í námunda við hann. Hann greip dýrið í gegnsætt sogrör sem hann notaði til að fanga skordýr og komst þá að því að þetta var algerlega óþekkt afbrigði. Þetta afbrigði hafði aldrei fyrr sést á eyjunni. Gleði mannsins var svo mikil þar sem hann stóð þarna langt frá öllum að hann vissi varla hvað hann skyldi gera við sig. Þetta var mikil hamingjustund. Hans heitasta ósk var að deila þessari ólýsanlegu gleði; að hann hefði fundið nýtt afbrigði af dýrinu (hann sagði mér hið latneska heiti en það get ég ekki munað.) Hann langaði svo innilega að spegla gleði sína í öðrum sem heyrðu um þessa miklu uppgötvun, öðrum sem mundu gleðjast með honum. En hann vissi að það mundi enginn skilja þessa sterku tilfinningar hans, fyrir utan hinn litla hóp í heiminum sem hefur sama áhugamál og hann. Fréttinn mundi gleðja þá fáu mjög og mundi gera daga þeirra ríkari. Aftur og aftur mundu þeir rifja upp fyrir sér þessa stórkostlegu frétt. Það eru í raun 205 afbrigði af skordýrinu á eyjunni.

En skiptir það í raun og veru einhverju máli að á eyjunni fyrir utan Svíþjóð eru 205 afbrigði af ákveðnu skordýri? Hvað skiptir máli? Því getur maður velt fyrir sér. En eitt er víst að félagi minn varð glaður við fundinn á afbrigði númer 205.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.