Ég hlustaði á Gauta Kristmannsson flytja bókadóm í Víðsjá á leið minni til vinnu í morgun. Þetta var vel fluttur og ágætlega skrifaður bókadómur og bar með sér fína kunnáttu gagnrýnandans. Þegar ég var bókaútgefandi á Íslandi fóru ritdómar Gauta alltaf örlítið í taugarnar á mér því venjulega var vonlaust var að nýta dóma Gauta sem kynningarefni fyrir þær bækur sem hann fjallaði um, jafnvel þótt hann væri ánægður með bækurnar. Gauti hefur tileinkað sér að fjalla um bækur á fræðilegan hátt og meta bækurnar út frá þeim fræðilegu forsendum sem hann gefur sér. Þetta er gáfulega aðferð. En fyrir bókaútgefanda er, og var, alltof erfitt að klippa eitthverja fína hróssetningu út til að nota í auglýsingum.
Um þetta hugsaði ég á leiðinni til vinnu í morgun og á sama tíma glotti ég með sjálfum mér yfir því hvað margir hafa strítt mér á þeirri tilvitnun (frá kaktusnum) sem Pétur Már og Palli hjá Bjartsforlaginu nota í auglýsingum sínum þar sem ég er með tárvot augun yfir sögu Ólafs Jóhanns, Sakramentið. Mér finnst ekki gaman að sjá nafn mitt undir slagorðinu, ég fékk tárin í augu, en mér er nær. Ég get ekki vælt yfir því.
Nú erum við strákarnir einir heima á ný. Sus tók lestina til Jótlands í morgun á leið til foreldra sinna til að hjálpa þeim í veikindum pabba hennar. Við drengir gerum eitthvað skemmtilegt í kvöld, borðum sennilega herramáltíð og kannski poppum við og drekkum kók yfir bíómynd. Davíð yrði að minnsta kosti glaður og Númi líka ef hann hefur tíma frá sínu unglingalífi. Hver veit?