Espergærde. Enginn í sýningarglugga

Ég var óvenju óstarfhæfur í gær. Ég vafraði í kringum sjálfan mig og verkefni mín. Það er ekki alveg líkt mér. En þess í stað hafði ég vart undan að svara fólki sem bar upp athugasemdir við kaktusdagbókina. Margir, mjög margir, stríða mér á minni tárvotu birtingarmynd sem bókmenntarýnis og tröllríður íslenskum fjölmiðlum. Nú eru víst komnar útvarpsauglýsingar frá bókaforlaginu Bjarti: “Með tárin í augunum, segja dómarar.” Úps! Þetta er víst ég. 

Annars fékk ég alvarlegri áminningu frá einhverjum sem kallar sig kó. Ég hafði lýst feitum, íslenskum hjónum og samtali þeirra um daginn og kó spyr: „er það óheiðarlegt að hlera svona samtal og gefa sig ekki fram? og síðan að punkta það niður og pósta? hvað heitir það?“  Ég neyðist hér til  að útskýra prinsipp mitt á Kaktus: Ef ég í leyfisleysi lýsi einhverjum eða einhverju sem gæti komið persónulega illa við þann sem ég skrifa um, stílfæri ég atburði þannig að enginn getur þekkt sjálfan sig aftur í atburðum eða samtölum. Ég er ekki að setja fólk sýningarglugga Kaktusins í leyfisleysi.

Svo voru í gær tveir aðrir sem skrifuðu mér svo falleg bréf um samband sitt við Kaktusdagbókina að ég fékk næstum  aftur tárin í augun. Það var huggun á degi þar sem mér varð allt of lítið úr verki. Ég er því ákveðinn í að hysja upp um mig buxurnar í dag og vinna einbeittur og agaður.

Í vandræðum mínum í gær hlustaði ég á gamalt útvarpsviðtal við Pétur Gunnarsson sem mér hafði verið bent á. Ég get ekki annað en dáðst að Pétri og hans fallega tóni þegar hann talar við fólk í útvarpi. Hann er bæði mjög áhugaverður og svo notar hann svo falleg orð sem maður annars heyrir sjaldan. Ég tók líka eftir hvað setningar hans hafa góða uppbyggingu. Það er unun að hlusta á hann. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.