Í kvöld er ég boðinn til veislu. Ég þarf að taka lestina inn til Kaupmannahafnar. Ég stíg úr lestinni á Hovedbanegården og geng þaðan upp til Rådhuspladsen og beygi til vinstri að húsi Politikens þar sem veislan fer fram. Það verður dimmt úti því það er fyrst í kvöld sem veislan verður haldin. Ég hafði lofað að koma, þetta er einskonar lokapunkturinn í yfirtöku Politikens forlags á mínu gamla forlagi Hr. Ferdinand.
Í veislunni á ég eftir að þekkja marga, ég á eftir að heilsa mörgum og ég á eftir að spjalla við marga. Og í kvöld hitti ég aftur Lene Juul, forstjóra Politikens, en hún stjórnaði kaupferlinu fyrir hönd Politikens. Nú þegar við hittumst hlæjum við að þessu sumri þar sem sumarfríið mitt fór í forlagssölu og hennar sumarfrí fór í forlagskaup. Ég reikna með að dvelja stutt í veislunni. Ég hef kvatt forlagsbransann.
Á morgun flýg ég svo vestur á bóginn frá flugvellinum í Kastrup og lendi, ef Guð lofar, í Keflavík. Ég ætla að klæðast vetrarúlpu því á Íslandi er víst kalt. Eftir að flugvélin hefur lent og ég hef fengið töskuna mína sest ég inn í rútuna, flugrútuna, sem keyrir framhjá álbræðslunni, gegnum Hafnarfjörðinn. Úr farþegasæti rútunnar á ég örugglega eftir að renna augunum til Kaplakrika, leikvang fótboltaliðsins í Hafnarfirði, þegar við ökum þar hjá. Og áfram brunum við í flugrútu í gegnum allan Hafnarfjörðinn, því við eigum ekkert erindi í Kaplakrika og engin ástæða til að staldra þar við. Garðabær og Kópavogur. Niður brekku og löng sveigja til vinstri og þar virði ég örugglega fyrir mér íþróttasvæði Breiðabliks. Ég dáist oft að íþróttamannvirkjum því græni litur vallanna verður oft svo fallegur í skini fljóðljósanna. Og áfram til Reykjavíkur fram hjá bakaranum í Suðurveri. Ég vona að umferðin gangi greiðlega fyrir sig því þegar ég kem á þessar slóðir finn ég venjulega fyrir óþoli. Ég vil komast út úr flugrútunni. Við stoppum við BSÍ ef allt gengur að óskum. Þaðan labba ég svo meðfram Miklubrautinni með ferðatösku í annarri hendi, sveigi inn á Háskólalóðina, upp tröppurnar fyrir framan Aðalbygginguna og þaðan áfram og yfir Suðurgötuna. Við Neskirkju fer ég örugglega að hugsað um Guðmund Óskar, sem einu sinni var prestur í þessari kirkju og var vinur pabba. Pabba líkaði vel við hann.
Þegar ég stika framhjá blokkunum á Hjarðarhaga leitar hugur minn til tveggja einstaklinga, ef ég þekki mig rétt… til tveggja einstaklinga, sem ég veit að búa á þessum slóðum. Fyrst hugsa ég um Hauk Ingvarsson því blokkin hans verður fyrst á vegi mínum. Það er sjaldan sem ég hugsa um Hauk Ingvarsson, en blokkirnar við Hjarðarhaga minna mig alltaf á hann. Ég á örugglega eftir að velta því fyrir mér hvort hann sé enn að vinna hjá Ríkisútvarpinu eða hvort hann sé í fullu starfi við að skrifa bókmenntaritgerð og ég á líka eftir að brjóta heilann um það hvort konan hans sé ekki örugglega ljósmóðir. Svo rölti ég áfram, enn með ferðatöskuna og nú er ég orðinn svolítið lúinn á að halda á töskunni því taskan er þung. Ég hef bæði keypt danskan munaðarlakkrís og bjór til að færa Söndru, og ég skima lengra inn Hjarðarhagann og hugsa um Eirík Guðmundsson. Ég sé Eirík fyrir mér einan heima í íbúðinni sinni, einan við píanóið sitt að syngja Tom Waits söngva. Ef ég mætti ráða mundi hann frekar að syngja gamla sálma, það lyftir sálinni. Svart hárið á kolli hans er úfið og hann er í bláu ullarpeysunni sinni. Þannig sé ég Eirík fyrir mér þegar ég tek beygjuna inn í átt að Hjarðarhaga 48.