Kastrup. Hinsta kveðja

Það fór eins og mig grunaði að ég ætti eftir að spjalla við marga í veislunni hjá Politiken í gærkvöldi. Auðvitað var margt um manninn, bæði starfsfólk forlagsins sem tók mér afar elskulega, blaðamenn, höfundar Politiken og annað fólk sem kemur nálægt framleiðslu bóka forlagins. Þarna var margt um manninn; á boðslistanum voru víst 250 manns. Það var ekki leiðinlegt.

Eitt samtal er mér eftirminnilegra en önnur þetta kvöld. Samtalið var gott enda viðmælandi minn geðþekkur maður. Hann heitir Jakob og er rithöfundur. Ég þekki Jakob en það væri nákvæmast að lýsa sambandi okkar sem kunningsskap frekar en vináttu. Við spjöllum þegar við hittumst en ég heimsæki ekki Jakob og hann heimsækir mig ekki. Eins og kannski flesta mundi gruna snerist samtal okkar um bækur, bókaskrif, sölu bóka, hljóðbækur og aðlögun bóka að sjónvarpsseríum (en hann vinnur við það um þessar mundir.) Honum var auðvitað vel ljóst að ég var hættur að gefa út bækur og hann óskaði mér til hamingju með það. Þetta samtal átti sér stað snemma kvölds.

Síðar um kvöldið, þegar ég hafði ákveðið að snúa mínu stóra nefi í átt til heimilis míns, gekk ég til Jakobs til að kveðja hann og þakka honum fyrir spjallið fyrr um kvöldið. Hann þakkaði sömuleiðis og sagðist hafa haft ánægju af samtalinu. Svo sagði hann það sem setti mig örlítið úr jafnvægi. „Vertu ævinlega blessaður, og ég vona að þér farnist vel í því sem þú tekur þér fyrir hendur hér eftir. Gangi þér vel í lífinu.“ Hann kvaddi á þann hátt að ekki var hægt að túlka kveðjuna á annan hátt en að við ættum aldrei eftir að sjást aftur. Þetta var okkar hinsta kveðja. Margar hugsanir flugu í gegnum höfuð mér. Er ég orðinn svo gamall að fólk er farið að kveðja mig eins og ég eigi ekki langt líf fyrir höndum? Eða setur hann Jakob þessa kveðju svona fram vegna þess að ég er hættur í bókabransanum og hverf nú úr þeim heimi en hann heldur áfram líf innan þess heims? Ég held að hann hafi séð í augum mér hvaða hugsanir flögruðu um huga minn svo hann var fljótur að bæta við: „En við rekumst auðvitað einhvern tíma hvor á annan. Við eigum eftir að hittast aftur.“

Nú yfirgef ég eftir stutta stund jörðina svo ég haldi áfram á sömu nótum því flug FI205 fer brátt í loftið. Ég lendi vonandi aftur á jörðinni eftir klukkan tvö.

ps ég er búinn að skipuleggja það sem ég les í fluginu: THE DRY eftir Jene Harper (ég er að verða búinn með bókina.) Ágætis bók eftir unga konu búsetta í Ástralíu. Þetta er hennar fyrsta bók og ég get ekki annað en dáðst að handbragði hennar. Þar að auki hef ég downloadað heimilidarmynd um bitcoin sem nú tröllríður öllu (það er myntin ekki heimildarmyndin) og ég hef ekki alveg skilið hugmyndina á bak við myntina. Ég skil ekki afhverju þessi rafmynt er allt í einu svona verðmæt. Á hvaða verðmætum hvílir bitcoin. Nú get ég skipt einu bitcoini fyrir 18000 dollara. Ég mundi frekar vilja eiga 18000 dollara en eina bitcoin mynt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.