Reykjavík. Nýtt alþjóðlegt listaverk í burðarliðnum.

Fyrsti dagur í Reykjavík og ég var fyrstur á fætur af öllum á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Ég gekk út fyrir allar aldir og tók myndir af kirkjuturnum í göngufæri við Hjarðarhaga á meðan enginn annar í höfuðborginni hafði opnað augun. Að vísu mætti ég fólki á göngu minni, en það voru allt gestir næturinnar á leið heim. Sumir köstuðu ölvuðum kveðjum til mín og vildu fá mig með sér á einhvern stað sem var hulinn áfengisþoku og enginn þeirra sem ég átti tal við var í ástandi til að kljúfa þokuna til að finna fyrirheitnastaðinn. Ég hélt því ótrauður áfram göngu minni milli kirkjuturna.

Mörgum kann ef til vill að þykja þetta fánýt iðja snemma laugardagsmorguns að mynda kirkjuturna, með sínum þungu krossum. Mér finnst það ekki. Ég get upplýst af einlægni að ég var djúpt sokkinn í verkefni mitt og fullur gleði. Að fara á fætur snemma á myrkum laugardagsmorgni til að mynda upplýst krossmörk er akkúrat það sem heimurinn hefur þörf fyrir. Ég vildi að fleiri gerðu það.

Ég endaði gönguför mína með að koma við í bakaríinu niður á Frakkastíg þar sem þeir baka svo fín brauð og keypti allskonar bakkelsi fyrir mig og Söndrufjölskyldu. Morgunmatur í póstnúmer 107.

Ég átti síðan stefnumót við verkfræðing í Múlahverfi klukkan 11:00 og ákvað að ganga frá Hjarðarhaga niður í Síðumúla. Þetta er alllöng ganga. Google segir 65 mínútur. En mér veitir ekki af að ganga langar leiðir í dag. Kaldal er langt á undan mér í FitBit-keppni okkar og ég hitti Kaldal klukkan fimm í dag og ég veit að ég á von á hæðnisglósum frá honum vegna kyrrstöðu minnar svo það er plástur á sárin að hafa dregið aðeins á forystu hans.

Klukkan 12:00 hitti ég svo Jón Karl Helgason. Það er nú maður sem maður lærir af í hvert skipti sem maður hittir hann. Við settumst niður á Kaffi Vest til að ræða framtíð listalífs á Íslandi og þá með sérstakari áheslu á framtíð útgáfu bóka. Nei, nú er ég að grínast, við settumst ekki niður til að ræða þetta alvarlega málefni. Ég þurfti bara að heyra rödd Jóns Karls og fá hlutdeild í hans skynsömu og örvandi hugsanalínum. Á kaffihúsinu hittum við Dag Hjartarson og Ragnar Helga Ólafsson. Þeir eru báðir skáld og vel gefnir ungir menn.

Þeir eru án efa áhugaverðustu útgefendur landsins. Útgáfan á Ljóðabréfi og Tunglútgáfan eru listaverk þeirra. Að gera bókaútgáfu að listaverki, er stórvirki sem ég hefði svo sannarlega viljað hafa afreka á mínum ferli sem útgefandi. Að lifta bókaviðskiptum/útgáfu bókmennta upp í listrænar hæðir er afrek og ég vona svo sannarlega að þeir útvíkki það sem þeir eru byrjaðir á og skapi nýtt stórt alþjóðlegt listaverk úr forlagsstarfsemi sinni; eitthvað sem aðrir listahópar í heiminum taki til fyrirmyndar. Bókaútgáfa á Íslandi (og ekki bara forlögin á Íslandi heldur allur heimurinn) hefur sannarlega þörf fyrir slíka uppliftingu, að sjá hina eilífu útgáfuhringrás, sem nær hápunkti í jólabókaútgáfu í desember, rofna og setta í algerlega nýjan og miklu frjórri farveg.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.