Reykjavík. Morgunn í Reykjavík

Ég var á göngu á sunnudagsmorgni í höfuðstaðnum og ég var einn í heiminum. Ég var mættur út í myrkrið klukkan að verða sjö og ákvað að fara í langan göngutúr til að taka mynd af enn einum kross á kirkjuturni. Það er verkefni mitt.

Þrátt fyrir að hafa farið seint að sofa fór ég snemma á fætur. Á leið í sturtu heyrði ég svefnhljóðin í litlu börnunum hennar Söndru sem sváfu þungt. Og þótt ég missti í ógáti hárburstann minn á gólfið rumskaði enginn og ég gat læðst út fyrir klukkan sjö án þess að vekja neinn. Eins og í gær endaði ég göngu mína í bakaríinu á Frakkastíg svo ég gæti komið með ilmandi morgunbrauð til fjölskyldunnar á Hjarðarhaga.

Í gærkvöldi hitti ég nokkra af vinum mínum yfir bjór á Hótel Nordica á Suðurlandsbraut. Kaldal er góður í að finna afskekkta staði þar sem við getum setið óáreittir og í friði fram eftir kvöldi. Þarna sitjum við sex saman, Sex í sófa, heitir bókin sem verður skrifuð um þennan fund því hann varð í alla staði ansi sögulegur. Falurinn komst ekki og Maggi Ásgeirs reyndi að skapa drama með því að aflýsa komu sinni á síðustu stundu með dularfullri afsökun. Kaldal upplýsti hina raunverulegu ástæðu og slökkti á öllum vangaveltum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.