Enn voru allir sofandi þegar ég lagði í hann út í nóttina. Haukur Ingvarsson sem býr við gönguleið mína á Hjarðarhaga var augljóslega sofandi eins og aðrir íbúar Reykjavíkur. Enda klukkan ekki orðin 04:00. Hvergi ljós. Allir sofa eins og alltaf. Eina veran sem ég hitti á vegi mínum frá Hjarðarhaga til BSÍ var hvítur svanur í pollinum við Norrænahúsið. Við horfðumst í augu dágóða stund þegar ég átti leið hjá. Annað hvort var hann úr ævintýri eða einn af þeim svönum sem sluppu úr bók Guðbergs Bergssonar hér um árið.
Að fljúga frá Íslandi krafst þess að maður sé hraustmenni og með stáltaugar. Að vakna klukkan rétt rúmlega þrjú að nóttu er ekki það sem ég óska mér helst, ég er varla sofnaður. Flughöfn sem var í slíkri upplausn eins og raunin var í morgun er bara fyrir heljarmenni á sál. Ég er sem sagt á leið aftur til Danmerkur eftir stutta dvöl á Íslandi. Og hér er skýrsla yfir fólk sem ég hitti í Reykjavík.
Kolbrún Bergþórsdóttir var á göngu í Austurstræti þegar ég var líka á göngu í þeirri götu. Við mættumst fyrir utan einhvern sportsbar og í sjónvarpsvegg á húsinu sem Kolbrún hallaði sér að var verið að endursýna leik Manchester City og Tottenham. Þegar samtal okkar átti sér stað var staðan 1-0 fyrir City. Hún var svo fín í tauinu að ég var að því komin að spyrja hana hvort hún væri komin á Alþingi eins og annað bókafólk. En hún varð fyrri til: „Nei, Snæbjörn! Þú ert þó ekki fluttur til Íslands?“
„Nei, ég er ekki fluttur.“
„Gott hjá þér.“ Og svo sagði hún mér frá flóknu ferli þess að segja upp í vinnu og velja á milli nýrra vinnutilboða en um leið vera í fríi næstu mánuði og öllu því sem maður getur haft í bakhöndinni ef maður hefur íslenskt ríkisfang.
Oddný Eir Ævarsdóttir var að afgreiða bækur í bókabúð Máls og menningar og hún benti mér á þá möguleika sem væru opnir í ilmvatnsiðnaðinum. Það er að segja ef ég væri enn ekki búinn að finna nýjan starfsvettvang. Mig langar að lesa bókina hennar og hef ákveðið að biðja Palla að senda mér hana.
Hjörleifur Hjartarson var líka að selja bækur í bókabúð Máls og menningar og hann sagði mér frá kostum þess að búa á tveimur stöðum á Íslandi og velja dvalarstað eftir árstíðunum tveimur, vetri og sumri. Um Ísland má segja að höfuðárstíðirnar fjórar séu þrjár; vetur og sumar.
Arndísi höfuðbóksala á Íslandi hitti ég líka í bókabúð Máls og menningar. Hún var bjartsýn. Hún og fleiri bóksalar bentu mér á þá athyglisverðu staðreynd að það væri einföldun að tala um almennt fall í sölu bóka. Flest forlög á Íslandi, ef frá er skilið það stærsta, selja fleiri bækur og fyrir hærri upphæðir árið 2016 en árið 2014 í bókabúðum. Það væri því uppgangur hjá mörgum af minni og meðalstórum forlögum en samdráttur hjá stærsta forlaginu. Ég heyrði það á þeim sem blönduðu sér í samtalið á miðju gólfi bókabúðarinnar, og þeir voru margir, að óvenjuleg deyfð væri yfir stærsta forlagi landsins og það vantað eitthvað fjör (í merkingunni líf) hjá þeim. Saknar JPV útgáfan kapteins Jóhanns Páls spurði einhver. Af tíu söluhæstu bókum desember mánaðar ætti Forlagið þrjár.
Dag Hjartarson hitti ég á Kaffi Vest. Þann mann hitti ég í fyrsta sinn og hann velti fyrir sér hvort mögulegt væri fyrir hljómsveit, eða jafnvel bara einn hljóðfæraleikara, að spila svo fallega og vel á skipsdekki að áheyrendu tækju ekki eftir því að skipið væri að sökkva.
Jón Karl Helgason beð mín á skutbíl fyrir utan verkfræðistofuna Vektor. Ég held að samtal okkar hafi snúist fyrst og fremst um dýrðina á ásýnd hlutanna og annað fánýti.
Halldóru Geirharðsdóttur rakst ég á fyrir utan Kaffi Vest þar sem ég stóð með Páli Valssyni. Hann hafði hatt á höfði og var hinn virðulegasti. Hún tök andköf þegar hún sá okkur tvo og sagði með leikrænum tilþrifum að nú væri mikið á seyði þegar tveir dúkar úr bókabransanum stæðu svona spekingslega fyrir utan kaffihús. Þegar hún hafði jafnað sig örlítið á þessari glæsilegu sýn, fórum við að tala um samband leigusala við leigjendur enda höfum við tvö átt nákvæmlega í slíku sambandi fyrir nokkrum árum.
Pál Valsson (Onkel Palle) hitti ég á Kaffi Vest og var farið af mikilli nákvæmni yfir margt. Meðal annars gildi funda með rithöfundum á kaffihúsi að morgni.
Ragnar Helga Ólafsson sat ég líka með á kaffihúsi og fékk ég meðal annars áritaða bók frá höfundinum. Ræddum við meðal annarra samtalsefna – en fundurinn stóð í tvo klukkutíma – um gamalt útvarpsviðtal tekið á vetrardegi í Zürich um nýjar leiðir í bókaútgáfu.
Á laugardagskvöld var svo leynifundur á Hótel Nordica með Eiríki Guðmundssyni, Jóni Kaldal, Magga Guðmunds, Jóni Kalman og Þorsteini J. Samtalsefni er ekki upplýst en ég get þó sagt að þar féllu margir sleggjudómar.