Ég var á Íslandi um helgina og kom heim til Danmerkur í gær. Rétt slapp á milli verkfallsvarða í flugstöð Leifs heppna og inn í flugvélina sem bar mig til Kaupmannahafnar. (Fulli maðurinn við hliðina á mér útskýrði tvisvar sinnum fyrir mér, og einu sinni fyrir grátandi barni fyrir aftan okkur, afhverju flugvél getur flogið.) Það var örlítil seinkun á fluginu og það tók töluverðan tíma að fá töskuna mína út úr flugvélinni (ég ferðast aldrei með ferðatöskur en nú í þessari ferð þurfti ég að flytja jólagjafir til Íslands -> taska). En sem sagt ferðin á leiðarenda var nokkuð löng vegna margvíslegra smátafa.
Ég hélt að enginn væri heima á Søbækvej og var því heldur undrandi, þegar ég hafði lokað útdyrunum á eftir mér og lagt ferðatöskuna frá mér í ganginum, að heyra einhvern hósta inni í eldhúsi. Ég þekkti ekki þennan hósta. Ég gekk því varlega inn í eldhús og kíkti inn um gættina. Þar grúfði ókunnur maður sig yfir eldhúsborð, var eitthvað að bauka og sneri bakinu í mig. Ég þekki ekki baksvipinn. Í loftinu var megn lykt af rakspíra og ef ég væri ljóðskáld mundi ég sennilega segja að þetta var dýr, franskur ilmur (það hefði þó verið í mótsögn við útlit mannsins að öðru leyti.) En ég er hvorki ljóðskáld né sérfræðingur í ilmtegundum, jafnvel þótt Oddný Eir Ævarsdóttir hafi hvatt mig til að finna mér starf innan ilmiðnaðarins.
„Góðan daginn,“ sagði ég á dönsku en bætti svo við „Eða á hvaða tungumál eigum við annars að tala saman?“ Þetta var hugsað sem spaug frá minni hálfu og eiginlega ómögulegt að vita hvað var fyndið við þessa fínu setningu ef maður hafði ekki búið inni huga mér síðustu tvö til þrjú árin.
„Bara dönsku, takk, og góðan daginn,“ sagði maðurinn og leit brosandi upp. Þetta var hávaxinn maður, með úfið hár og skegg. Ég tók eftir að hann var á ullarsokkum. Hann var sposkur á svipinn.
Ég gekk til hans og tók í höndina á honum og kynnti mig. „Orso Bianco, ólífubóndi frá Ítalíu,“ sagði ég. Enn smá einkaspaug sem maðurinn hafði ekki minnsta möguleika á að skilja enda stökk honum ekki bros á vör.
„Jacob,“ sagði hann og tók í höndina á mér. Á borðinu fyrir framan hann var blað og rauður penni. Ég sá að hann hafði verið að teikna hreindýr. Þetta var fallega teiknað dýr og ég furðaði mig svolítið á að hann hafði sett skotsár milli augna dýrsins og teiknað blóð sem rann frá sárinu og niður snúðinn með rauða pennanum.
„Og hvaða erindi átt þú svo hér?“ spurði ég.
„Já, ég var að gera við gaskerfið. Ég er búinn, ég nennti bara ekki af stað aftur. En nú dríf ég mig. Hér er lykillinn.“ Hann benti á lykil sem lá á vaskbrúninni.
„Ok,“ sagði ég. Og svo kvöddumst við. Hann skildi teikninguna eftir og ég hikaði við að henda henni í ruslið lengi fram eftir degi.