Eins merkilegt og það kann að hljóma þá fylgist ég enn með í því sem gerist innan bókmennta og bókaútgáfu. Í gær las ég um unga konu, Kristen Roupenian, sem fékk birta smásöguna Cat Person í THE NEW YORKER fyrir stuttu. Og nú er allt að verða vitlaust út af þessari sögu er segir frá Margot, ungri konu og háskólanema, sem kynnist sér nokkuð eldri manni í kvikmyndahúsi. Sambandi þróast frá því að þau skiptast á nokkrum SMS-um yfir í holdlegt samband; „Þetta var hryllilegur koss, hræðilega vondur; Margot gat varla trúað því að fullorðinn maður væri fær um að vera svona lélegur að kyssa.“ Og á endanum dregur Margot sig út úr sambandinu og Robert (en svo heitir maðurinn í sögunni) sýnir sitt rétta andlit. Bamm bamm.
Í gær las ég söguna, ágæt saga og sennilega mjög í takti við það sem er efst á baugi hjá ungu fólki í dag. Ég hugsaði með mér: Ef ég keypti réttinn á þessari sögu og öðrum sögum höfundarins mundi mér takast að vekja áhuga danskra lesenda? Eftir stutta umhugsun var svarið stutt og laggott: nei, það held ég ekki.
En hvað gerist: Í síðustu viku keypti Cape forlagið, breska, smásagnasafn Kristens Roupenian fyrir meira en eina milljón dollara og í kjölfarið berjast ellefu ólík amerísk forlög um ameríska útgáfuréttinn á hinu sama smásagnasafni og síðasta boð var komið hátt yfir milljón dollara markið.
Það merkilega við þetta allt er að Kristen Roupenian er rétt byrjuð að skrifa bókmenntatexta og sagan sem birtist í New Yorker er það fyrsta sem birtist eftir höfundinn. Smásagnasafnið, sem forlögin berjast um, er nánast ekki fullklárað, að minnst kosti er blekið enn blautt. Svona geta hlutirnir þróast í forlagsgeiranum: þar er líka hystería.
Spurning er: á Kristen Roupenian eftir að verða stór höfundur, lesin og dáð um allan heim? Fylgist með Kaktusnum. Kaktusinn hittir í mark. Yo!