Espergærde. María á sinn stað

Hó. Það er bjartur dagur í Espergærde sólin skín og þoturnar skilja eftir sig hvítar rákir á bláum bakgrunni. Ég er búinn að spila tennis og vinna Jesper Hvidbjerg (Monte Bianco), stórt. Yo!

(Tennishöllin hér í bænum er vel nýtt. Við Jesper áttum tíma klukkan 08:00 og eftir okkur kemur flokkur eldri borgara sem spilar tennis. Sennilega átta karlar og konur á sjötugsaldri og jafnvel eldri. Í morgun var uppnám í hópnum vegna þess að einum úr hópnum hafði verið meinað af konu sinni að mæta þar sem þau voru eitthvað sein með jólaundirbúning. Það þótti tennisflokknum svakalegt að heyra. Eða eins og einn gamall tennisspilari sagði: „Ég hélt að við af sextíuogátta-kynslóðinni værum svo góð að skipuleggja tíma okkar.“ Þetta hafði ég ekki heyrt fyrr.)

Í gær keyrðum við inn til höfuðstaðarins til að ná í mynd sem hefur verið í viðgerð hjá einhverjum miklum meistara sem getur gert við gifs. Myndin datt í gólfið fyrir nokkru og þurfti á viðgerð að halda. Ég hef saknað þess að hafa ekki Maríumyndina yfir mér þegar ég vinn á kvöldin. En nú er hún á sínum stað.

IMG_0567[2]

Matarmenningarlegar upplýsingar: Í Kaupmannahöfn fengum við okkur að borða á mexikóskum veitingastað sem heitir Sanchez og á að vera eins konar götumatur á háu plani. Eigandinn er mexíkósk kona sem hefur verið kokkur á NOMA. Ég varð eiginlega fyrir töluverðum vonbrigðum. Mætti ég heldur biðja um alvöru mexikóskt götueldhús.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.