Espergærde. Sinnepsframleiðandinn

Tvennt hefur sótt á huga minn í dag. En þessar tvær hugsanir spruttu upp í huga mér á löngum göngutúr út á akrana hér fyrir utan bæinn í morgun. Himinninn var heiður, logn og þeir sem ég mætti á göngu minni voru í sínu besta skapi. Gleðileg jól.

Í fyrsta lagi fór ég enn og aftur að hugsa um manninn sem varð svo ríkur á sinnepsframleiðslu. Ég heyrði hann segja frá lífi sínu í útvarpi.  Þar sagði hann frá því að hugmyndin að því að fara að selja sinnep  hafi fæðst þegar hann tók eftir því að fólk sem fékk sér sinnep á disk, t.d. á veitingahúsi, leifði alltaf megninu af sinnepinu. Því ákvað hann að fara að framleiða og selja sinnep. Ég hef aldrei skilið rökin, sama hvað ég hugsa oft um þessa röksemdafærslu.

Hitt atriðið sem sótti á mig í dag var kannski afleiðing af því að ég keypti blómvönd í morgun til að skreyta heimili okkar með yfir jólin. Fallegur, rauður blómvöndur. Þegar ég gekk með blómvöndinn framhjá litlu kaffitorgi í verslunarmiðstöðinni hér í bænum, sátu þar þrir ungir piltar í iðnaðarmannagalla. Ég heyrði að einn þeirra sagði um leið og hann hnykkti höfðinu í átt til mín: „Hann er fokking fullur af eftirsjá þessi gaur. Nú er hann á leiðinni til kellingarinnar með fokking blómvönd. Eins og það hjálpi.“ Vinir  hans litu á mig og hlógu. Þegar ég hugsaði um þetta komment varð mér hugsað til þess að pabbi minn vildi aldrei gefa mömmu minni blóm. Annars gerði hann allt fyrir hana, bara engin blóm. Það var sama hvað mamma bað oft um blóm hún fékk ekki blóm. Svo kom að því að ég spurði pabba að því af hverju hann gæfi henni ekki blóm fyrst hún spyrði svo oft um það. „Ég kom einu sinni heim með blómvönd, bara upp úr þurru. Og þegar ég færði mömmu þinni blómin sagði hún reiðilega. Hvað hefurður eiginlega gert af þér. Þetta voru nú viðbrögðin við blómunum. Ég ákvað þá að ég skyldi aldrei koma með blóm á heimilið. Það er kannski heimskulegt, en mér sárnuðu svo þessi viðbrögð.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.