Espergærde. Hinn vanmetni Ármann Jakobsson.

Ég heyrði frá manni í gær sem fór meðal annars yfir jólabókaflóðið á Íslandi í löngu og skemmtilegu bréfi. Bréfið fannst mér gaman að lesa. Íslenskur bókamarkaður heillar mig enn þótt það sé langt síðan ég hef verið annað en lesandi íslenskra bóka. (Það eru margir sem senda mér bréf eða önnur tilskrif sem furða sig jafnframt á því að ég fái svo mörg sendibréf. Skrifið mér bara bréf og furðið ykkur á að ég fái mörg bréf. Fátt er betra en að fá óvænt og góð bréf.) En mér var sem sagt bent á í þessu fína bréfi að skáldsaga Ármanns Jakobssonar, Brotamynd, væri ótrúlega vanmetin og fengi alls ekki þá athygli sem hún ætti skilið. Það væru allt of fáir sem veittu henni athygli, en sennilega var þetta ein besta skáldsaga ársins. Þetta kom mér á óvart og ég ætla að kaupa e-bókina og lesa yfir jólin.

Ég mætti ekki til vinnu í gær, hóf jólafrí mitt fyrir tímann. Ég fann á fjölskyldunni að þau vildu endilega að ég væri með í jólaundirbúningi allan daginn. Það gerði ég. Það er svo sem ekki svo mikið sem er óklárað. Sus skipuleggur hlutina á danskan hátt þannig að jólaverkin hefjast snemma hér á bæ og eru gerð eftir dönsku skema. Allt gengur því eins og smurð vél. Í dag er löng tennisæfing svo það var betra að hafa klárað það sem þarf að klára í gær.

Ég furðaði mig dálítið á því að Félag íslenskra bókaútgefenda virðist ekki ætla að birta lista yfir mest seldu bækurnar frá 10-16. des. Síðasti listi sem félagið hefur birt er listi með sölu fram til 10. des.  Ég á svolítið erfitt með að skilja þetta á hásölutíma bóka. Bóksölulistar vekja alltaf athygli, ýta undir sölu bóka (kannski aðallega metsölubóka) og ekki er það slæmt fyrir bóksölu að fá smáumfjöllun um mest seldu bækurnar? Í þessu langa bréfi var mér bent á þetta, og þótt ég taki ekki undir samsæriskenninguna sem bréfritari taldi liggja að baki þessari ákvörun, finnst mér þetta líka skrýtið.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.