Espergærde. Í veislu í Kbh.

Nú er ég vaknaður og ég er þegar farinn að skynja að daginn er tekið að lengja; allt stefnir að vori. Ég hlakka til, ég er vormaður.

Númi benti mér á í gær að stærsta leigubílafyrirtæki heims ætti engan leigubíl. Uber. AirBnB hefur fleiri leiguherbergi á boðstólum en stærstu hótelkeðjur heims en sjálft fyrirtækið á engar fasteignir. Facebook er heimsins stærsti fjölmiðill en framleiðir sjálft ekkert efni. Google hefur lykilinn að stærsta upplýsingasafni heims en gefur sjálft ekki út neinar upplýsingar. YouTube er stærsta „sjónvarpsstöð“ heims án þess að búa sjálft til eina sekúndu af sjónvarpsefni. Og svo er það Alibaba, kínverska netbúðin, sem er stærsti smásali í heimi án þess að hafa eina einustu vöru á lager. Þannig er heimurinn í dag. Allt byggir á hugbúnaði. Svona er staðan en fyrir 10 árum benti fátt til þess að heimurinn yrði samansettur á þennan hátt.

Bókabransinn er eins og allir vita íhaldssamur og klassískar hefðir enn í heiðri hafðar. En hér eru líka breytingar í vændum. Fyrir nokkrum árum voru allir vissir um að e-bækur mundu útrýma prentuðum bókum. Það virðist ekki ætla að verða raunin því sala á e-bókum fer minnkandi og sala á prentuðum bókum fer vaxandi. Athyglisverðast er þó að víðast í hinum bókelskandi heimi hefur orðið bylting á „lestri“ hljóðbóka. Hlutur hljóðbóka vex á eldingarhraða í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Englandi, Bandaríkjunum…  En Ísland er enn í viðjum Blindrabókasafnsins með framleiðslu og útgáfu hljóðbóka. Þetta er auðvitað ömurlegt kerfi á hljóðbókaútgáfu á Íslandi og það er ekkert vit í að útgefendur láti þetta Blindrabókakerfi yfir sig ganga. Flestir þeirra sem nýta sér hljóðbókaþjónustu Blindarbókasafnsins hafa haukfrán augu og sjá í gegnum holt og hæðir og hafa enga þörf fyrir ríkisstuðning til að fá sitt lestrarfix.

Í veislu inn í Kaupmannahöfn vék sér að mér maður sem ég þekki ágætlega. Honum var mikið niðri fyrir og sagði í spámannstóni: „Ég skal segja þér það, Snæi: Innan tveggja ára verða hljóðbókaseríur, eins og Netflix-seríur, það sem bókaútgáfurnar lifa á. Taktu eftir þessu. Í dag er 18. desember og þann 18. desember 2019 skulum við taka stöðuna aftur. Ég er 100% viss um að ég hef rétt fyrir mér.“

Á leið minni heim úr veislunni fékk ég svo stuttan tölvupóst frá sama manni: „Netflix með hljóðseríur. Ekkert prent. Soundflix – pólitískir þrillerar, glæpasögur, sci-fi, allt. Ekki bækur. Orðið bók má ekki nota. Hljóðseríur. Það er framtíðin!“

IMG_0594

ps. Ég fékk í jólagjöf frá systur minni nokkrar myndir af sjálfum mér frá því ég var yngri. Þetta eru sennilega einu myndirnar sem til eru. Mér fannst gaman að sjá þær.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.