Hamingjulínan

Ég vaknaði snemma. klukkan var ekki orðin sex þegar ég var kominn niður og búinn að hella mér upp á kaffi. Þótt minn heimur stefni á vor – dagarnir lengjast óðfluga – þá var enn niðadimmt úti svo snemma dags. Ég er hræddur um að nágrannar mínir hafi enn verið steinsofandi.

Sandra sendi mér í gær graf yfir vísindaniðurstöður sem komu mér ekki á óvart. Grafið sýnir hvernig sokkar vekja sífellt meiri gleði eftir því sem maður eldist. Ég kannast við þetta. Ef einhver spyr mig hvers ég óska mér í afmælisgjöf eða jólagjöf hef ég svarið á reiðum höndum: ég óska mér kurteis og glöð börn …  og sokka.

FullSizeRender

Ég hefði líka getað óskað mér bóka í jólagjöf, það eru margar bækur sem ég hef áhuga á að lesa. En ég kaupi þær bara sjálfur. Í gær keypti ég bók Ármanns Jakobssonar, Brotamynd, það er að segja e-bókina. Það var eiginlega fyndið að sjá verðið á bókinni á Amazon. Meira en 40 dollarar. Ég held að ég hafi aldrei séð svona dýra bók á Amazon. En ég keypti hana á íslenskri síðu, fyrir íslenskar krónur.

Í kaupferlinu á bók Ármanns fletti ég, á netsíðunni, í gegnum íslenskar bækur sem hafa komið út síðustu mánuði og satt að segja varð ég undrandi hvað margar bækur höfðu meira eða minna alveg farið framhjá mér, ég sem annars er með augun galopin fyrir íslenskum bókum. Ég hef nánast ekkert heyrt um nýja bók Einars Más, Passamyndir, ekkert heyrt um Smartís, Gerðar Kristnýjar (er þetta unglingabók?), lítið heyrt um Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur (veit þó að hún fékk tilnefningu),  lítið heyrt um ljóðabók Braga Ólafssonar, Öfugsnáði, annað en að erfitt var að klára prentferli þeirrar bókar (sem var í sjálfu sér óáhugavert). Ég hef ekkert séð eða heyrt um bók Oddnýjar Eir (og hefði ég ekki hitt höfundinn í bókabúð hefði ég ekki vitað um tilvist skáldsögu hennar, sem ég satt að segja veit ekki hvað heitir). Svona get ég lengi talið. Getur þetta verið eðlilegt að svona margar bækur læðist óséðar framhjá mér sem er örugglega meðal þeirra sem eru áhugasamastir um íslenskar bókmenntir. Ég held að þetta hljóti að vera umhugsunarefni fyrir útgefendur. Hó, útgefendur, þið náið ekki einu sinni til mín og ég hef augu og eyru galopin! Nú verð ég að bæta við að mér finnst furðulegt að jafnfín bók og Millilending Jónasar Reynis skuli hverfa fullkomlega fáum vikum eftir útkomu bókarinnar.

Sumir höfundar sprikla eins og fiskar í neti á facebooksíðum sínum og hampa sjálfum sér en það eru hjáróma raddir, sem erfitt er að taka alvarlega og vekja sjaldnast áhuga.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.