Lesblíðunámskeiðið

Það á ekki alveg við mig að vakna seint, en ég kemst ekki á fætur fyrr en samferðafólk mitt er komið á ról. Ef ég byrja að brölta snemma morguns vakna allir. Berlín var fyrir löngu vöknuð þegar ég drattaðist á fætur og rölti yfir á kaffihúsið hér hinum megin á götuhorninu. Kaffihúsið er í sérstaklega þýskum stíl með ljósum húsgögnum sem er vandlega stillt upp í beinar línur. Ekki lítur út fyrir að vera margt um fastagesti, annað en gamlan mann sem situr alla daga út í horni með hundinn sinn. Hann virðist ekki þvo sér oft um hárið þessi gamli maður því hárið hangir í feitum strimlum niður á enni hans. Kaffið er svosem ágætt hér en þetta yrði aldrei minn staður byggi ég í Berlín.

Ég fékk kveðju frá ungum manni sem býr aldeilis hér í Berlín og hann spurði hvort við getum ekki hist á meðan dvöl minni stendur og reynt að ráða á þeim fundi bót á lesblindu minni með klukkutíma námskeiði í vörnum gegn lesblíðu. Ég ætla að reyna að koma því í kring. Ég hefði gaman að því þótt ég sé hræddur um að ég hafi ólæknandi lesblíðu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.