Stefnumótið

Morgunmatur á svissneskum veitingastað er eitthvað sem vert er að prufa aftur. Sjaldan hef ég fengið jafngott kaffi. Þessi agnarlitli veitingastaður er vandlega falinn inni í litlum almenningsgarði. Davíð var svo illt í maganum að við urðum að yfirgefa staðinn svo hann gæti lagst á bekk í garðinum og jafnað sig. Þar lá hann og ég sat við hliðina á honum og klappaði honum á kollinn og reyndi að skemmta honum með lýsingum á því sem fyrir augu bar. Meðal annars hljóp  lávaxinn hlaupari litla hringi eftir stíg í garðinum og átti all oft leið framhjá okkur tveimur þar sem við hímdum á bekknum. Hlauparinn kom örugglega frá Sómalíu eða Kenýa því hann var svo léttstígur að það var sem hann hlypi á fjöðrum.

Eins gekk eldri maður í köflóttu jakkasetti framhjá okkur með hund í köflóttu jakkasetti eða kannski sparifötum. Mér varð á að hlæja að hundinum og það gladdi ekki hundeigandann. „Þú skalt ekki hlæja að hundinum mínum,“ sagði hann birstur.

Ég hafði mælt mér mót við Ugga Jónsson seinnipart dagsins á lítilli bjórknæpu í Prenzlauerberg. Þar mætti hann með kærustu sinni, elskulegri konu. Mér finnst alltaf gaman að hitta Ugga, þann snjalla og góðviljaða mann. Ég gat því miður ekki stoppað eins lengi og ég vildi því ferðafélagar mínir biðu eftir mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.