Gullverðlaun árið 2018

Kominn til Danmerkur eftir fínan túr til Berlínar; sex tíma ferðalag að baki. Við síðustu áramót lofaði ég sjálfum mér að skrifa að minnsta kosti einu sinni á dag í Kaktusdagbók. Það tókst með einni undantekningu (30. júní), þegar ég veiktist skyndilega og gat ekkert gert til að redda Katusskrifum þann daginn. Alla aðra daga hef ég skrifað. Yo!

Síðustu þrjá daga hef ég ekki getað einbeitt mér almennilega vegna mannmergðar og óróleika í kringum mig. Ég þarf eiginlega að skrifa bak við lokaðar dyr. En ég lofaði sjálfum mér í dag þegar ég sat undir stýri á þýskri hraðbraut að ég skyldi skrifa á Kaktusinn alla daga ársins 2018. Á sömu hraðbraut laust niður í mig sú  hugsun að ég þyrfti að stefna á að vinna einhvers konar verðlaun í ár. Það er svo upplyftandi. Ég veit ekki fyrir hvað (margt kemur til greina: tennis, fótbolti, skák, húsbyggingar, þýðingar, dagbókarskrif, verðlaunabók um Pep…) En ég er sem sagt harðákveðinn í að stefna  á að vinna gullverðlaun í einhverju árið 2018. Það er því víst eins gott að byrja að einbeita sér. Ég byrja á morgun. Fyrsti vinnudagur á verðlaunaári.

dagbók

2 athugasemdir við “Gullverðlaun árið 2018

 1. Sæll og takk fyrir síðast – það var mér dýrmætt
  gleðiefni að spjalla almennilega við þig. Og
  Constanze var mjög hrifinn af þessum fundi.

  Sannarlega magnaður bjór sem þú mæltir með.
  Við urðum hér um bil hálffull af honum.

  En annað samt: Þú átt heima í Espigerði, en mig
  vantar samt fulla adressu, ætlaði nefnilega að láta
  dulítið í hendur þér í fyrradag, en það gleymdist heima.
  Sem betur fer er til póstþjónusta og um að gera að nota
  hana svo hún ekki leggist af.

  Kv.
  Uggi

 2. ps: Mér líst mjög vel á´þessa gullverðlaunahugmynd og geri hana óðara að minni – nú getum við keppt innbyrðis og gáð hvor verður fyrstur að ná sér í svona gull. Ég fékk síðast gull á hraðskákmóti á Akureyri árið 1979, þannig að það er alveg kominn tími á að endurvekja
  náin kynni við þann góðmálm.

  u

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.