Listi yfir stöðuna 2017. Fuck off 2017?

Að gera upp árið? Þetta er tíminn. Á maður að gera það upp? Ég er eiginlega ekki í stuði til þess, en samt, algerlega án undirbúnings, í freudísku flæði, læt ég vaða: Og fyrst kom upp í hugann hvers sakna ég mest frá árinu 2017 og um leið kom upp í huga mér tönnin sem var rifinn út úr munninum á mér í haust. Jaxlinn innst hægra megin niðri, en í honum var sprunga í rótinni sem ekki var hægt að laga svo tönnin var fjarlægð. Nú er ég ekki ánægður með hvernig ég segi „L“ En það er kannski of flippað að segja að maður sakni tannar en það er samt satt. Ég er hálf miður mín yfir tannmissinum.

Bók ársins. Ég heyrði bókmenntagangrýnendur Ríkisútvarpsins taka saman árið 2017 í útvarpsþættinum Viðsjá. Ekki þótti þeim mikið til skáldskaparins koma, ekkert sérstakt sem stóð upp úr, ekkert sem hreyfði við þeim. Þetta fannst mér sorglegt að heyra en sennilega er ég sammála þeim. Ekkert af því íslenska efni sem ég las á árinu fær hárin á mér til að rísa. Þó eru tvær bækur mér efstar í huga: Annars vegar er það Stofuhiti eftir Berg Ebba. Mér fannst það hressandi bók og ýmislegt óvænt og skemmtilegt í meðförum hans. Hin bókin sem mér kemur í hug og kom mér eiginlega á óvart var bók Dags Hjartarsonar, Heilaskurðlækningar. Í þeirri bók var margt nýstárlegt og ég hafði gaman af hinum gáfulegu tökum sem hann hafði á ljóðinu. Gagnrýnendur Víðsjár bentu þó á að margar góðar barna- og unglingabækur hefðu komið út á árinu. Það þótti mér gaman að heyra. Ég hef bara ekki fylgst svo vel með í þeim geira. Besta bókin sem ég las árið 2017 er bók Elizabetar Strout: My name is Lucy Barton.

Ferðalag ársins: Ég hef þvælst víða í ár. Ég hef verið í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Óman, Marokkó, Bandaríkjunum og Íslandi. Þótt ferðirnar hafi nánast allar verið stórskemmtilegar þá held ég að ferðin til Óman hafi verið eftirminnilegust. Sérstaklega sá hluti þegar við dvöldum uppi í fjöllunum.

Hljómplata ársins: Allt í einu fór ég að hafa gaman að Chet Baker. Sennilega var það af því að arabískur húsgagnasali setti plötu með Chet á gamlan grammafón til að gleðja mig og mér þótti tónninn svo fínn. Og nú hlusta ég á Chet í Paris (fjórar plötur). Bara fínt.

Músikuppgötvun ársins: Þegar ég lít yfir það sem ég hlusta á er fátt nýtt undir nálinni. Ég á erfitt með að finna nýja músik. Ég er samt alltaf að leita.

Bjór ársins: Í París er lítil bjórbúð. Búðin liggur í götunni minni og allar hillur eru fullar af bjórflöskum frá öllum heiminum. Þar er ungur maður, eigandinn, sem bendir mér alltaf á góðan bjór sem ég á að smakka. Ég man ekki hvað bjórinn hét en það var besti bjór ársins. Drukkinn ískaldur í byrjun desember 2017.

Atvik ársins: Ég gæti sagt kaffibolli undir brennandi sól á torginu í Vico del Gargano á meðan ég virti fyrir mér sveppasalann að störfum. Það er lítið og gott atvik. Ég get líka sagt salan á Hr. Ferdinand. Það var stórt.

Borg ársins: Mílanó. Ég var svo ánægður með borgina. Kannski vegna þess að mér tókst að skrifa undir söluna á Hr. Ferdinand í borginni eftir að hafa eytt meira en níu taugastrekkjandi mánuðum í söluna.

Kvikmynd ársins: Ég hef næstum ekki séð kvikmyndir í ár. En Manchester by the Sea var góð.

Listupplifun ársins: Nick Cave konsertinn í New York í sumar og jólaoratoria Bachs í Kaupmannahöfn.

Bréf ársins: Ég fæ stundum bréf, eins og ég kalla e-mail, sms og athugasemdir sendar inn á Kaktusinn. Ég held að bréf ársins hafi komið frá Hermanni Stefánssyni. Það var í þremur hlutum og hver hluti örugglega 20 síður í bók. Þetta voru andrík, hressandi og skemmtileg bréf. Meira af slíku.

2017: „Fuck off. My thoughts on 2017 are mostly this. 2018: bring it on!“ Þessi orð vinkonu minnar vöktu mig til umhugsunar. Var árið 2017 svo slæmt? Nei, það var ekki slæmt en mig vantaði smá rythma árið 2017.

Veitingastaður ársins: Húsálfarnir sem leigðu okkur húsið í Marrakech, elduðu fyrir okkur í sjö daga og það var topp gott. Og líka ítalski staðurinn Le Petit Italian í París, í götunni minni. Þangað kom ég daglega í viku í desember og borðaði kvöldmat. Maður var aldeilis velkominn þar.

Morgunmatur ársins: Ristuð avocatobrauðsneið og kaffi hjá hipsterunum í París.

Hugmynd ársins: Bók í vinnslu; Pep Guardiola: Sabbatárið í New York.

Áramótaheit ársins: Að vinna gullverðlaun árið 2018.

Versta hugsun ársins: Ég er í tímaþröng, ég er á síðustu bensínsdropunum. Þetta er hugsun sem er farin að herja á mig síðustu mánuði. Mér finnst ég eiga svo stutt eftir að ég er í stanslausri tímaörvæntingu.

Vindill ársins: Reyktur á svölum LaChiusa í júlí 2017.

Blogg ársins: Kaktusinn. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.