Fliss og stunur bókmenntasérfræðinga

Ég varð svolítið hissa og eiginlega sárnaði mér þegar ég heyrði fliss og hálfgerðar yfirlætisstunur tveggja bókmenntagagnrýnenda í útvarpinu í fyrradag. Ég var að hlusta á Víðsjá og umsjónarmaður þáttarins hafði spurt tvo íslenska bókmenntaspekinga hvað þeim þætti um að Kazuo Ishiguro hefði fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Ekkert annað kom upp úr þeim en fliss og stunur. Þetta var útvarpsefni svo ég sá ekki látbragð  bókmenntasérfræðinganna tveggja. Eftir nokkra mæðu sagði annar gagnrýnandinn þreytulega: „Af hverju ekki Murakami?“ Hmm?

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég get bara ekkert séð hið hneykslanlega við úthlutun Nóbelsverðlaunanna í ár og hefði gjarnan vilja heyra sérfræðingana orða hugsanir sínar fyrir útvarpshlustendum. Mér finnst Ishiguro sérstaklega vel að verðlaununum kominn. Það eru fáir núlifandi höfundar sem mér finnst hafa lyft bókmenntunum á jafn háan stall og þessi mikli meistari. En ég rifja þetta upp nú þar sem ég fékk bréfasendingu í nótt. Ég varð ekki var við neitt þegar bréfið læddist inn í tölvuna mína. Ég svaf bara. Sendingin innihélt, auk fárra orða, tímaritsgrein sem bréfsendandi hafði fundið í tímarit.is; gamla grein sem birtist í TENINGNUM árið 1990 eftir undirritaðan um engan annan en Kazuo Ishiguro. Bréfritara fannst við hæfi að minna mig á þessi gömlu, barnalegu skrif. Ég hafði eiginlega gleymt  tímaritsgreininni sem var sennilega það fyrsta sem ég birti á opinberum bókmenntavettvangi. TENINGURINN, sem Gunnar Harðarson ritstýrði, var ansi gott tímarit um bókmenntir og myndlist. Ég veit ekki hvort maður geti sagt að það sé mikill missir af því, þar sem útgáfa tímarita virðist vera hálfgerð tímaskekkja á vorum tímum, en ég var gífurlega áhugasamur um útgáfu þessa tímarits og beið með öndina í hálsinum eftir hverju nýju tölublaði.

Ég man að ég kom með greinina til Gunnars á heimili hans á Öldugötunni að kvöldi dags. Það var skuggsýnt, ég hringdi á skrautlegri dyrabjöllu og eftir stundarbið á tröppunum fyrir utan útidyrnar kom Gunnar fram í ljósið í dyragættinni. Ég hafði aldrei séð Gunnar fyrr. Hann bar gáfumannagleraugu á nefinu og var sposkur á svip þegar hann heilsaði mér með kveðjunni: „Ert þú nýi maðurinn í bókmenntaheiminum?“ Þetta þótti mér fyndið og eiginlega uppörvandi að heyra, því ég hafði ekki séð sjálfan mig sem hluta af bókmenntalífi Íslendinga, þó að ég skrifaði stutta grein. En mér fannst ég allt í einu velkominn inn í þessa veröld sem ég hafði horft inn í úr fjarska og með töluverðri lotningu. Ég afhenti honum diskettuna með greininni og var spenntur að heyra hvað honum þætti um skrifin, hvort þetta væri birtingarhæft í þessu framúrskarandi tímariti. Ég heyrði ekki meira frá Gunnari um greinina en hún birtist í næsta hefti Teningsins mér til töluverðar undrunar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.