Hin hrasandi manneskja

Ég hef verið á valdi þeirrar óþægilegu tilfinningar upp á síðkastið að ég sé að falla á tíma. Að ég sé að keyra á síðustu bensíndropunum og ég megi engan tíma missa. Ég hafi ekki tíma til neins því það sé um seinan að byrja. Þessi tímaörvænting hefur alveg eyðilagt hjá mér allan rytma, panikkin er svo mikil. Ég get ekki talað um þetta eða sagt frá þessu þar sem þetta er svo handan allrar skynsemi og ekki til að skilja. Ég reyni því að sýna mína rólegu hlið þótt ég sé eiginlega að springa. Þetta er nú meira hugarástandið.

Í morgun spilaði ég tennis, en ég þurfti að tala sjálfan mig til til að mæta; ég varð að segja við sjálfan mig að þetta væri allt í lagi, ég gæti vel notað tímann til að spila klukkutíma tennis. Samtímis hristi ég hausinn yfir sjálfum mér. Ég hef meira að segja íhugað að hætta að skrifa dagbók til að nýta þann hálftíma sem ég sit yfir Kaktusnum. En ég komast að þeirri niðurstöðu að Kaktusinn væri nauðsynlegur fyrir rytmann hjá mér. Eins konar inngangur fyrir daginn, byrjun á degi.

Þetta er kannski dálítið undarlegt að ég fái þessa tímaörvæntingu einmitt núna þegar ég ætti að hafa allan heimsins tíma. Engin föst vinna, bara verkefni hingað og þangað sem oft hafa engin föst tímamörk.

Við borðuðum hádegismat í gær niður á Il Divino með Lottu. Einum af þýðendum hr. Ferdinands. Hún vildi sjá hvernig við hefðum það forlagslaus. Hún kom með slúður frá höfuðstaðnum, úr danska bókabransanum en það snerti mig ekki.

Charlotte, sem vann hjá okkur og sá um C&K forlagið (dótturforlag Hr. Ferdinand)  er enn reið út í okkur fyrir að hafa selt forlagið. Ég get því miður ekki gert svo mikið við því, forlagið er selt (mér til ánægju) og ég get ekki séð að söluferlið hefði getað verið öðruvísi. Ég hef kallað yfir mig reiði. Ég get ekki sagt að ég nærist á reiði annarra út í mig. Stundum gerist það að ég reiti fólk til reiði með því að vera eins og ég er; hin hrasandi manneskja.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar