Að finna sinn stað

Ég las viðtal við nokkra listamenn um hvar þeir hugsuðu best. Hvernig kjöraðstæður þeirra (listamannanna) væru svo að til þeirra kæmu frjóar hugsanir; þar sem þeir næðu að einbeita sér að þeim. Einn sagðist hugsa best í rúminu, þar væri hlýtt, þar var mjúkt og bara gott fólk hefði leyfi til að trufla mann. Annar taldi hugsanir sínar næðu hæstu hæðum inni í ákveðinni kirkju í London, enn annar á listuppboðum o.s.frv. Allir höfðu listmennirnir sinn stað.

Ég minnist á þetta þar sem ég finn að mig vantar afdrep þar sem ég get unnið í friði; bara stað þar sem ég get lokað hurð. Mér finnst erfitt að einbeita mér ef fólk er á sveimi í kringum mig. Skrifstofan okkar er kjörstaður þegar enginn annar er að vinna en við erum sex sem störfum í húsinu og það er oft einhver sem vill spjalla eða bjóða upp á kaffi eða spyrja ráða …

Ég sakna þess stundum að ekki séu fleiri vefsíður sem fjalla um íslenska list í öllum sínum fjölbreytileika. Ég kíki stundum á Starafugl. Það er stórfínt að sú síða sé til en ég fæ ekki svo mikið út úr öllum þessum ritdómum, mig langar í meira sprell. Stundum gat verið gaman að lesa blogg Braga Ólafssonar. Ef til vill missti rithöfundurinn sig of oft út í einhverja þráhyggju sem var ekki sérstaklega skemmtileg fyrir utanaðkomandi en inn á milli voru fyrirtaks taktar. Þórdís Gísladóttir, sem er rithöfundur, skrifaði stundum hugleiðingar um ritstörf og bækur, það gat líka verið fínt og Eiríkur Örn Norðdahl skrifaði, eða skrifar, líka og stundum um bókmenntir eða störf rithöfundar. Það gat líka verið ágætt. En mig vantar eitthvað sprúðlandi og fjölbreytt, eitthvað sem ég get farið inn á á hverjum degi og fundið eitthvað uppörvandi. Ekki getur maður sagt um heimasíður forlaganna, íslensku, að þar sé fjör. Ef einhver getur bent mér á líflega, vandaða, upplyftandi og skemmtilega vefsíðu þar sem íslensk liststarfssemi (í sinni víðustu mynd; viðtöl, umfjöllun, blogg … ) er höfuðviðfangsefni yrði ég glaður.

Hér voru Ole og Tina í mat í gær. Það var bara of mikill matur í húsinu í gær og einhver þurfti að borða allt  góðgætið sem búið var að skera, rífa, krydda steikja, sjóða, salta, baka … svo við fengum þau til að koma og hjálpa okkur með að borða matinn. Stórfínir gestir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.