Vandi hinna óþekktu

Eins og sjá má á myndinni skín sólin í gegnum gluggann minn. En í dag verð ég ekki mikið úti að leika því við höfum planlagt bruggdag, Jóga-Jesper, Henning og ég. Eldhúsinu á lestarstöðinni hefur verið breytt í iðnaðareldhús þar sem bruggaður er bjór og pylsugerðarmenn eru að störfum. Í næsta mánuði er skipulögð mikil bjór og pylsuveisla.

Í gær lýsti ég eftir vefsíðum sem gætu skemmt mér og fullnægt þörfum mínum fyrir fjörlega og nærandi vefsíður. Ég fékk engin viðbrögð, ekki múkk. Hvernig ber manni að túlka slíka þögn? Að enginn slík íslensk vefsíða sé í loftinu? Að enginn nenni að svara fyrirspurn minni? Að enginn hafi lesið fyrirspurn mína? Ekki gott að segja.

ps Ég er mikill aðdáandi Robert Galbraiths. Robert þessi skrifar glæpasögur um einkaspæjarann Cormoran Strike. Nú hafa þrjár bækur komið út í þessari framúrskarandi glæpasagnaröð og margir bíða með öndina í hálsinum eftir bók númer fjögur. Ég er einn þeirra.

Robert Galbraith er höfundarnafn J.K. Rowling. Þegar hún ákvað að skrifa glæpasögurnar vildi hún ekki nota sitt þekkta nafn. Það skapaði í fyrstu vandræði því hún átti í erfiðleikum með að fá glæpasöguna útgefna og þegar bókin kom út fékk hún dræmar viðtökur, fáa dóma og hálfvolga og almennt áhugaleysi. Það var ekki fyrr en í ljós kom hver höfundurinn bak við höfundarnafnið Robert Galbraith var J.K. Rowling að bækurnar fengu verðuga athygli, bæði gagnrýnenda, lesenda og ekki síst útgefenda um allan heim. Bækurnar seldust fyrst til útlendra útgefenda (ég held ekki að bækurnar séu komnar út í íslenskri þýðingu) þegar ljóst var að sjálf Rowling stóð bak við skrifin.

Því miður er þetta alltof oft svona hjá forlögunum. Óþekkt nöfn eiga erfitt uppdráttar. Frekar eru gefnar út lélegar bækur þekkta einstaklinga en góðar bækur eftir óþekkt nöfn. Þannig er það nú.

 

dagbók

2 athugasemdir við “Vandi hinna óþekktu

 1. Sæll vertu, Snæi
  Ég fór óðar á stúfana í gær í tilefni af fyrirspurn þinni og spurðist fyrir hjá einni vinkonu minni sem er sú netfróðasta sem ég þekki og hefur mikinn áhuga á ýmsum kúltúr, einkum litteratúr og myndlist. Hún svaraði mér áðan og benti á eftirfarandi:
  Artzine.is
  bokvit.blogspot.is
  Vonandi kemur þetta að einhverju gagni, hef svo sem ekki skoðað þetta mikið sjálfur.

  Gangi ykkur vel að brugga – þetta hljómar mjög spennandi.

  Sendi þér svo bréf senn hvað líður.

  Heilsist þér sem best í hvívetna,

  Uggi

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.