Samlyndi útsofinna og vansvefta hjóna.

Bruggdagur í gær! Já, allur gærdagurinn fór í bruggstússið. Við vorum ekkert sérlega heppnir þar sem kúturinn fyrir heitavatnið hér á skrifstofunni byrjaði að leka og vatnið rann inn í rafmagnsleiðslur svo allt rafmagn sló út á sama tíma og heita vatnið fossaði út úr kútnum og niður á gólf. Hér var því bæði dimmt og blautt. En sjálf bjórgerðin heppnaðist vonandi vel.

Jóga-Jesper sem er einn hinna þriggja bruggara sýndi mér í gær tæki sem hann ber um úlnliðinn sem getur mælt ótrúlegustu hluti: hve langt maður gengur, hve hratt maður hleypur, hve lengi þú syndir hverja sundgrein (bringusund, skriðsund…), og fleira og fleira og tækið mælir líka svefn (lengd, gæði …) Og hann montaði sig af því að oft sefur hann meira en 11 klukkutíma á sólarhring! Ég á FitBit armband sem ég nota til að keppa við Kaldal í hreyfingu. FitBit-bandið mitt mælir líka svefn og ég kíkti á minn meðalsvefn og þar kom í ljós að ég sef að jafnaði 6:27 mínútur á sólarhring.

Jesper benti á (og vísaði í grein í New York Times máli sínu til stuðnings) að samband hjóna/ kærustupars er mun betra ef fólk sefur vel og lengi. Þeir sem sofa minna eru fljótari til að verða neikvæðir og árásargjarnir. Jesper sýndi mér tvö dæmi og réttlæti þar með sinn langa svefn:

„Í upphafi snýst samtal hjónanna um barnaafmæli. Í upphafi eru hjónin róleg en smám saman byrja þau að rífast heiftarlega. Hún ásakar mann sinn að vanrækja fjölskylduna. Hann segir að hún öskri á hann.
„Whatever,“ segir hún. „Farðu bara.“
„Fara? Fara hvert?“ svarar hann. 
„Það veit ég ekki,“ segir hún. „Ég nenni ekki að tala við þig.“

Þessi hjón sofa of lítið. En hitt dæmið er af hjónum sem hafa sofið vel og lengi. Þau ræða áhyggjur sínar af fjármálum fjölskyldunnar. Fjárhagsáætlanir og peningaeyðslu. Allt samtalið er í vinsemd:
„Vilt þú kannski bara sjá um að skipuleggja fjármálin?“
„Ég get það ekki. Ég vil það ekki.“
„Ég skil.“
„Æ, þú lætur bara eins og ekkert sé. Ætlarðu að segja mér að ég sé klikkuð?“
„Þú ert ekki klikkuð.“

Að öðru. Skyndilega bárust mér allmargar tillögur að vefsíðum sem að einhverju leyti mættu þeim kröfum sem ég setti um skemmtilegar og uppörvandi vefsíður. Meðal þeirra vefsíðna sem bent var á voru:
husoghillbylli.com sem er helguð myndlist. Heimsóknir á vinnustofur listamanna og samtöl við þá. Fín heimasíða fyrir þá sem eru áhugasamir um líf og störf myndlistarmanna.
http://sysifos.com sem er vefsíða meira og minna helguð heimspeki en þar eru líka bókadómar. Gott fyrir áhugamenn um heimspeki
Druslubækur og doðrantar. http://bokvit.blogspot.is er vefsíða skrifuð af hópi kvenna. Leggja áherslu á hlut kvenna í bókmenntum. Síðan er þó hálfdauð; sjö innlegg árið 2017.
Starafugl. http://starafugl.is. Nokkuð fjölbreytt vefsíða um menningu, með megináherslu á ritdóma.
artzine.is vefsíða um myndlist og myndlistarsýningar. Gott fyrir áhugamenn um myndlist.

Ég þakka öllum þeim sem lögðu sig fram um að finna skemmtilegar vefsíður fyrir mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.