Hin innilega gleði

Í gær þegar ég sat heima við skrifborðið inni í stofu og las yfir þýðingu mína kom Númi til mín. Númi, eins og aðrir ungir menntaskólanemar, er ansi hrifinn af símanum sínum. Í gegnum símann heldur hann sambandi við vini sína (Snapchat, Messenger)  og fær fréttir af veröldinni handan símans (Facebook). En í gær sýndi hann mér einskonar myndband í símanum sínum af Facebooksíðu. Þetta var ótrúleg saga af manni sem hafði grætt svo mikla peninga í veðbréfaviðskiptum á fáum dögum að það þótti meira en lítið grunsamlegt. Lögreglan handtók því manninn. Hann hélt fast við fáránlega skýringu um tímaflakk og hvarf svo þremur dögum eftir yfirheyrslur lögreglunnar og hefur ekki spurst til mannsins síðan. En það var ekki bara saga mannsins sem vakti athygli mína heldur hvernig henni var miðlað.

Í bakgrunni birtust ljósmyndir sem einskonar skreyting við söguna, en sjálf sagan var sögð með því að birta stutta setningu yfir myndskreytinguna og svo aðra setningu eftir hæfilega langa bið. Það var svo augljóst að það þurfti að búta sögutextann niður í mjög litlar einingar til að fanga athygli væntanlegra lesenda. Sagan sem var í mesta lagi 15 línur hefði vel getað birst  í einu lagi á skjá en þá hefði innslagið bara ekki vakið nein likes og fáir facebook-notendur hefðu hnotið um söguna. Að lesa heila sögu um þennan mann er hreint óhugsandi. Getur verið að fólk eigi orðið erfiðara með að leggja eitthvað á sig?

Ég minnist á þetta þar sem ég las í gær ágætan pistil eftir Auði Jónsdóttur þar sem hún fjallar um deyfðina yfir bókaútgáfu landsmanna. Fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á bókmenntaumræðu eða skáldsagnaskrifum. Og skáldin eru örvæntingarfull og finnst eins og bækur þeirra hafa verið sendar út í tómarúm þar sem allt verður að engu. Það hlýtur að vera óþægileg tilfinning eftir mánaðarlangar kvalir við söguskrif.

„Gleymdu þessu! segir ein­hver. Þú hefur ekk­ert í nýja tækni og nýjar kyn­slóð­ir, sættu þig bara við það. Þetta er breyttur heim­ur! Og hann verður aldrei aftur sá sem hann var. Fjöl­mið­arnir eru öðru­vísi, lög­málin önn­ur.“ (úr pistli Auðar Jónsdóttur um um bókmenntaáhuga fjölmiðla.)

Mér finnst þetta bara svo sorglegt því ég veit að margir missa af þeirri miklu og innilegu gleði sem bóklestur getur veitt og er engu öðru lík. Kaldhæðni tröllríður okkar ágæta samtíma. Ætli það sé ekki minnkandi bóklestur sem skrúfi upp allt þetta kaldlyndi?  Lestur bóka gerir fólk hæfara til að finna til samlíðunar með öðru fólki sem er forsenda fyrir enn betri heimi. Ég óttast að facebook hafi ekki þessi sömu þroskaáhrif.

Ég er sannfærður um að þeir sem hafa áhuga á að efla bókaútgáfu og auka áhuga á bóklestri þurfi að finna nýjar leiðir. Endastöðin er framundan verði ekki breytt um stefnu og ný leið fundin til að kynna bækur og vekja áhuga á þeim. Það mundi gera þjóðinni stórkostlegt gagn ef útgefendur legðu áherslu á að ná til barna með útgáfu sinni. Það er eitt skref. Forlögin geta líka gleymt því að fjölmiðlar veiti bókmenntum meiri áhuga ef áhugi almennings heldur áfram að minnka. Nýjar leiðir, takk.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.