„Make art great again“

Ég var óvenju snemma á ferðinni í morgun, var búinn að loka á eftir mér útidyrunum fyrir klukkan hálf átta. Gönguferðin frá Søbækvej til lestarstöðvarinnar er um 2000 skref, tæpir tveir kílómetrar og göngutúrinn eftir fáförnum götum litla bæjarins tekur ekki nema um tólf mínútur. Maður mætir fyrst og fremst hundaeigendum, og þeir eru margir, á göngu svo snemma morguns. Ég rakst meira að segja á konuna með hundinn, bakveiku og atvinnulausu konuna sem hefur svo mikinn áhuga á að spjalla við mig. Mér tókst með líkamstjáningu minni að koma henni í skilning um að í dag var ekki boðið upp á annað en morgunkveðju, ekkert rabb.

Um hvað fjallaði aftur smásaga Tsjekhovs Konan með hundinn? Ég reyndi að veiða söguna upp úr hugskotinu á göngu minni en ég gat ekki rifjað hana upp. Ég sé bara fyrir mér bókakápuna á smásagnasafninu með sama titli og Árni Bergmann var svo góður að þýða.

Ég fékk þrjú bréf (gaman að fólk nenni að skrifa mér) í gær sem tóku fyrir Kaktus-spjall mitt um óttan um dauða íslenskra bókmennta og bókmenntaumfjöllunar. Bréfritararnir voru elskulegir og tveir þeirra bentu mér á að ég var bara ekki á vettvangi og því kannski ekki rétti maðurinn til að bæti hið íslenska bókmenntasamfélag: „Þú ert mikið að hugsa um endalok íslenskra bókmennta og ert auðvitað á röngu landi til að bjarga þeim…“ eins og annar bréfritarinn orðaði hugsun sína, og hefur auðvitað rétt fyrir sér.

Nú hlusta ég á Víðsjá á morgnana þegar ég geng til vinnu. Eiríkur er búinn að skamma mig svo mikið fyrir að röfla um Lestina hér á Kaktussíðum að ég treysti mér ekki lengur til að hlusta á útvarpsþáttinn. Ég heyrði í fyrsta skipti í lífi mínu nafn svissnesk-íslenska listamannsins Christophs Bücher í Víðsjárþættinum. Hann vil breyta prótótýpunum af Trump-múrnum við landamæri Mexíkó í concept-listaverk og vinnur undir kjörorðinu Make art great again. Mér þótti það athyglisverð umfjöllun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.