Hvað hreyfir við manni?

Á ferðum mínum út fyrir heimili mitt hef ég alltaf meðferðis eina bók sem ég geymi í vasanum, eða töskunni hafi ég hana með á ferðum mínum. Í rauninni er betra að segja að ég hafi að minnsta kosti eina bók meðferðis. Þessa dagana geng ég um með bók eftir danska ljóðskáldið Inger Christensen. Ég les í þessum bókum á ólíklegustu stöðum þar sem ég staldra við eða á auða stund. Ég er sennilega eins og allir þeir sem grípa alltaf símana sína þegar þeim leiðist. Ég gríp mína bók og les nokkur augnablik. Ekki að mér leiðist. Mér leiðist aldrei, nema í jóga.

Í morgun þegar ég vaknaði beið mín tölvupóstur frá gamalli vinkonu minni sem m.a.  spurði mig í stríðnislegum tón um hvað ég ætlaði að skrifa á Kaktusi dagsins. Ég svaraði að það vissi ég fyrst þegar ég settist niður og væri búinn að skrifa fyrstu orðin. Þaðan í frá kæmi bara bunan út úr mér. Og hún svaraði að bragði:

„Þú skalt skrifa um þau atvik í vikunni sem hafa hreyft við þér.“
„Já,“ svaraði ég og skoðaði dagatalið og sá að hún átti við dagana 4. til 11. janúar, frá fimmtudegi til fimmtudags. Mér var svarað samstundis.
„Þú átt ekki að koma með skáldlegar athugasemdir um það sem er efst á baugi.“
Allt í lagi.

Nú verðum við Númi einir heima um helgina. Sus og Davíð fóru til Jótlands. Númi kemur að vísu ekkert heim fyrr en í nótt því í menntaskólanum er dansiball og áður en haldið er af stað til kvöldskemmtunarinnar í skólanum hittist  þetta unga fólk heima hjá einhverjum og hitar upp, eins og það er kallað, Ég verð því einn með sjálfum mér í dag, það er sko skemmtilegur félagsskapur. Yo!

Hlustaði á samtal við Gísla Pálsson, mannfræðing í útvarpinu. Samtalið við Gísla kveikti svo sem ekki í mér, en bókin sem lesið var upp úr í tengslum við viðtalið setti mig í gang. Eða hreyfði við mér, eins og það er kallað. Bókin Loftslag eftir Max Frich. Ég er agalegur. Það eru svo margar bækur sem mig langar að lesa. Bara eftirfarandi byrjun á sögunni gerði mig nánast viðþolslausan, mig langaði að byrja á þessari bók. Strax. Nú. En auðvitað fæst hún ekki sem e-bók og ég er í útlöndum. En svona er byrjunin:

„Skáldsögur eiga alls ekki við þessa dagana. Í þeim er fjallað um manneskjur í samböndum sínum við sjálfa sig og aðra. Um feður og mæður og dætur, nú eða syni og ástkonur og svo framvegis. Um mannfólk – aðallega óhamingjusamt – og um þjóðfélagið og svo framvegis. Líkt og jarðnæði sé tryggt fyrir þetta allt saman. Jörðin sé og verði jörð. Skikki komið á sjávarhæð í eitt skipti fyrir öll.“

dagbók

Skildu eftir svar