Flutningaskip á leið til Riga.

Það var hrollkalt á leiðinni niður til bakarans við höfnina í morgun. Napur og hvass vindur frá Eyrarsundinu blés á móti mér þegar ég arkaði í morgunhúminu eftir götunum hér í litla bænum. Sem fyrr voru bara hundaeigendur, með kúk í poka, á vegi mínum. Úti á sundinu sigldu flutningaskip með ljós í möstrum, bæði á leið suður og norður. Farmurinn voru litríkir gámar fullir af þoku og draumum.

Ég settist einn við morgunverðarborðið. Númi svaf inni í sínu herbergi, enda var hann á kvöldskemmtun fram á nótt, en hinir í fjölskyldunni borðuðu morgunmatinn sinn á Jótlandi, þar sem þau eru í heimsókn. Á rúnstykkið frá bakaranum skar ég litla ostasneið og með því drakk ég minn góða espresso-bolla. Undir þessum hófsama morgunverði lét ég tölvuna mína, sem ég stillti upp við hliðina á mér, flytja mér skemmtilegan útvarpsþátt um svissneska rithöfundinn Max Frich. Hann var áheyrilegur hann Jón Atli Bjarnason, þýðandi bókarinnar Loftslag, sem var viðmælandi þáttastjórnanda.

Ég heyrði um daginn einhvern segja frá því að hann hefði verið á siglingu umhverfis Manhattan með leiðsögumanni. Leiðsögumanninum lá svo mikið á hjarta að í þessari þriggja tíma löngu bátsferð talaði hann látlaust; sem sagt án þess að þagna. Það merkilega var að í hans huga var veruleiki og skáldskapur jafngildur. Hann greindi ekki á milli hvað gerðist í veruleikanum og hvað gerðist í skáldskap. Hann benti á byggingu inn á Manhattan eyjunni og sagði: „Já, hér í þessu húsi bjó Soprano-fjölskyldan, þarna… ofan af þakinu á þessari byggingu stökk Superman niður …“

Ég segi frá þessu af því í gær varð mér ljóst hvað ég hafði verið svakalega vitlaus að leita ekki upp hús Hemingways á Kúbu þegar ég var staddur á þeirri voluðu eyju. Kúba olli mér svo miklum vonbrigðum, og sennilega þess vegna, í öllu mínum leiða yfir hnignuninni á Kúbu, datt mér bara ekki í hug að ferðast að húsi Hemingways. Húsið er í smábæ í útjaðri Havana, San Francisco de Paula.

Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Feneyjum. Einna minnisstæðast úr þeirri ferð er þegar mér tókst að finna hótelið þar sem Thomas Mann hafði dvalið  og skrifað Töfrafjallið. Mér fannst mikilvægt að sjá staðinn og í rauninni ógleymanlegt. Eins fannst mér skemmtilegt að ganga um hús Neruda í Valparaiso í Chile. Ég verð bráðum eins og leiðsögumaðurinn á bátnum við Manhattan. Heimur skáldskapar fær jafnt gildi og sjálfur veruleikinn. Sá veruleiki þar sem ég geng til bakarans á morgnana og horfi á fullfermd flutningaskip sigla suður Eyrarsund í átt til Riga, fær sömu vigt og fegurð Snæfríðar Íslandssólar.

2013-07-30 16.12.59
Hótelið í Feneyjum þar sem Thomas Mann skrifaði Töfrafjallið (Der Zauberberg). Hótelið var lokað og mikil eymd lá yfir þessu fyrrum glæsihóteli.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.