750 dagar

Philip Roth, amerískur rithöfundur, sagði árið 2009 að fólk héldi sennilega alltaf áfram að lesa skáldsögur, skáldsagan sem slík mundi ekki deyja. En Philip Roth bætti við að eftir 25 ár, það er árið 2034, yrðu þeir sem læsu skáldsögur jafn margir og lesa ljóð á latínu í dag. Það eru ekki margir. Ef ég verð á lífi árið 2034, verð ég einn þeirra fáu.

Zadie  Smith, breski rithöfundurinn, var einu sinni spurð að því hvers vegna hún hefði valið að nota svona drjúgan tíma af ævi sinni til að skrifa. Hún svaraði að hún skrifaði til að halda sér vakandi. „Ég vil ekki ganga í svefni í gegnum lífið, þess vegna skrifa ég.“ Ég minnist á þetta hér vegna þess að á göngu minni niður til bakarans í morgundimmunni  rifjaði ég upp að nú hefði ég skrifað dagbók í 750 daga, ekki sleitulaust, en síðustu 13 mánuði hef ég skrifað á hverjum degi.

Og hvers vegna skrifa ég? Já, ég gæti sagt eins og Zadie að ég skrifa til að vera vakandi og það er líkalega rétt þótt megintilgangurinn sé að viðhalda mínu íslenska ritmáli. Annar ánægjulegur fylgifiskur skrifa minna er að ég held lifandi sambandi við hóp fólks sem nennir að senda mér viðbrögð við dagbók minni, klappa mér, skamma mig eða stríða mér, og nokkrir lesa bara og fylgjast með lífinu hér í smábænum á norðurhluta Sjálands án þess að senda mér einhverjar athugasemdir. En ég finn að þetta styrkir vinskapinn.

ps Það var tennisæfing í gær. Stundum á ég erfitt með að skilja sjálfan mig. Ég fagna alltaf svo ákaft (og sá eini í æfingahópnum) t.d. bara þegar mér tekst að vinna eina æfingalotu. Ég er hlægilegur en þetta kemur bara upp úr mér, fagnaðarópið, sama þótt ég reyni að muna að þegja.

 

dagbók

2 athugasemdir við “750 dagar

    • Nei, ég fer ekki á hverjum degi til bakarans. bara um helgar þegar við drengir erum einir heima. Og það er ekki ristabollur sem ég kaupi, bara grófbollur, ha!

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.