Hinir dýrmætu

Engin bakarísferð í morgun enda hneykslanlegar allar þessar bakarísferðir, morgun eftir morgun. Þess í stað var strikið að heiman tekið beinustu leið upp á kontór í nístandi vetrarkulda töluvert áður en sólin fór á fætur. Að ganga einn í myrkri eftir götum sofandi smábæjar í slíkum kulda að maður lokar sig frá veröldinni og fer inn í sjálfan sig gerist ekki oft hér í Danmörku. Og einmitt inni í minni eigin, litlu veröld á hraðri göngu fór ég að hugsa um Ingmar Bergman og bókina sem dóttir hans Linn Ullmann skrifaði um þau tvö og alla aðra sem snertu líf þeirra. Það er góð bók, hugsaði ég með mér,  þetta er sannur texti, heiðarlegur, hjartað slær í þessari bók. Þess vegna er hún svona góð. Það er einmitt þetta sem gerir bækur góðar. Ég kann vel við höfunda sem reyna að segja eitthvað satt. Hjartað slær.

Ég hef verið skammaður fyrir að segja þetta, þetta með hjartað, en nákvæmlega svona hugsaði ég, inni í mínum litla einkaheimi á leið til vinnu í myrkri og nístingskulda.

Ég hef aldrei hugsað um þýðingar sem löðurmannlega vinnu. Að þýðing sé eitthvað sem hægt sé að gera með vinstri, með tánum og rassgatinu. Og ég hef þó átt í sambandi við hundruð þýðendur í lífi mínu, misduglega. En það er merkilegt að allir þeir sem spyrja mig hvað ég sé nú að gera eftir að ég hætti sem forleggjari, finnst þýðingarvinnan eitthvað sem sé alls ekki nóg fyrir mig. Að vera þýðandi er alls ekki full vinna og ekki framtíðarstarf. En hvað ætlarðu svo að fara að gera, er endurtekið þegar ég hef lýst þýðingarverkefnum mínum.

Sennilega er það rétt að ég verð ekki þýðandi fram í andlátið, en að þýða bækur á bara sérstaklega vel við mig þessa dagana. Að sitja yfir þýðingu, keppast við að ná settu marki dag hvern, og hafa þessa fínu músik á fóninum og dásamlega espressovél innan seilingar gerir líf mitt bara svo gott. Dýrmætt, eins of færeyski vinur minn, Heri, hefði sagt. En í hans augum voru allir dýrmætir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.