Skrautfiskar í stíl

Ég heyrði í gær að hinn ágæti prófarkalesari sem las yfir þýðingu mína af mikilli smekkvísi sé búsett á Grikklandi og gæti þar asna. Mér fannst þetta auðvitað athyglisvert að heyra svo ég forvitnaðist aðeins um hvort þetta gæti væri rétt. Áður hafði ég heyrt að hún væri geitahirðir í Tyrklandi og hafi ákveðið dvalarstaðinn vegna þess að þarna suðurfrá væri himinninn stærri og stjörnurnar fleiri. Þriðja útgáfan var að hún byggi í tjaldi í miðjum ólífulundi  við Korfu ásamt þremur ösnum.

Aðrar heimilir sögðu að þessi ágæti yfirlesari, sem ég hef aldrei heyrt um fyrr, hafi ákveðið að flýja Ísland vegna peningagræðginnar og efnishyggjunnar sem tröllreið öllu á árum áður. Mér skilst á einum heimildarmannanna að dropinn sem fyllti mælinn og hrakti yfirlesara minn á flótta frá Íslandi var þegar hún sat í nýjum sófa í nýju húsi í Reykjavík og var kynnt fyrir vandamáli sem henni fannst of absúrd. Í húsinu hafði nefnilega risastórt fiskabúr verið hannað og byggt inn í stofuvegginn. Það var hins vegar tómt vegna þess að það fundust ekki skrautfiskar sem pössuðu við sófasettið.

Ég veit sem sagt ekki hvað er satt af þessu en hún skilaði að minnsta kosti góðu verki.

Í morgun spilaði ég tennis, ég segi ekkert um úrslit dagsins, grrrrr. Ég á í vandræðum með bakhöndina þessa dagana, svo því sé haldið til haga. 18. janúar 2018 á ég í vandræðum með bakhandarspilið í tennis. Það verð ég að bæta. Í kvöld er fótboltaæfing og þjálfarinn er kominn í sinn svakalega ham þar sem framundan er æfingaleikur á mánudaginn og nú á að æfa kerfi!

Heyrði frá tveimur félögum mínum úr danskri rithöfundastétt í gær. Þeir skrifa bækur, sjónvarpsseríur og kvikmyndahandrit saman. Nú langar þá að viðra hugmyndir við mig og kalla til samráðsfundar í næstu viku. Ég hlakka til að heyra í þessum köppum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.