Grænmetisætan

Upp er komið hið athyglisverðasta mál. Í fyrra hlaut suður-kóreanska skáldsagan Grænmetisætan (The Vegetarian) eftir Han Kang, Man-Booker International Prize sem besta skáldsaga ársins þýdd yfir á ensku. Þetta eru virðuleg verðlaun sem skiptast milli þýðanda og höfundar og verðlaunaféð nemur margra mánaða launum fyrir þýðanda. Bókin fór mikla sigurför um heiminn, enda athyglisverð bók.

En nú er komið babb í bátinn. Þýðandinn, Deborah Smith, hafði fengið töluvert hrós fyrir þýðingu sína, og úr mörgum áttum, eftir að bókin kom út á ensku. Þessi ungi – hún er aðeins tuttugu og átta ára – þýðandi hafði tekið sér fyrir hendur sjö árum áður að læra kóreönsku upp á eigin spýtur og uppgötvaði að sjálfsögðu að ansi fáar bækur voru þýddar frá tungumálinu yfir á engilsaxnesku. Til að bæta úr skortinum hófst hún handa við að þýða þessa fínu bók, Grænmetisætuna. 

Rétt mánuði eftir að verðlaunin höfðu verið veitt þessum tveimur ungu konum, Deborah og Han Kang, birtist í The New York Review of Books grein eftir rithöfundinn Tim Parks, (hann þýðir sjálfur úr ítölsku) þar sem hann undrar sig á þýðingunni á Grænmetisætunni. Honum finnst hún gamaldags, tilgerðarleg og  eins og eitthvað passaði ekki í söguþræðinum. Hann gat svo sem ekki sagt að þýðingin væri ekki trú höfundarverkinu þar sem hann hafði ekki tungumálaþekkingu til að lesa bókina á frummálinu.

Ári síðar birtist ný grein um þýðingu bókarinnar nú í suður-kóreönsku menningartímariti þar sem prófessorinn Chane Yun (fædd í Bandaríkjunum) hafði tekið að sér að fara í saumana á þýðingunni og þá kemur ýmislegt í ljós. Til dæmis hefur þýðandinn sleppt að þýða 5,7% af texta verksins og 11% af bókinni annað hvort vantar eða er rangt þýddur. Mörg orð eru ranglega þýdd og bæði athafnir og samtöl eru skrifuð á rangar sögupersónur. Þar að auki hefur þýðandi tekið sér það bessaleyfi að bæti inn setningum og orðum sem ekki eru í originalinum.

Skemmtilegasta dæmið er að melóna er þýdd sítróna og í uppskrift sem birtist í bókinni er melónan sett í uppskriftina í stað sítrónu, það sem átti að sjóða er steikt og að auki finnur þýðandi upp á að bæta dressing inn í uppskriftina. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Ingunnar Snælands og er væntanlega unnin upp úr ensku þýðingunni.

Ég nefni þetta hér það sem ég er sjálfur í smáklemmu. Ég er að þýða bók úr japönsku, japanskan krimma. Satt að segja eina athyglisverðustu glæpasögu sem ég hef lesið í háa herrans tíð. Höfundur hefur sjálfur gefið grænt ljós á að hægt sé að þýða bókina úr ensku. Ég hef því ensku þýðinguna til að vinna upp úr. En bókin kom út á dönsku í fyrra í þýðingu konu sem ég hef sjálfur unnið með og veit að er einstakur úrvalsþýðandi. Hún þýðir beint úr japönsku og er bæði eldklár og vandvirk. Þegar ég ber þessar tvær þýðingar saman, þá dönsku og þá ensku, kemur í ljós að sumar setningar eru svo ólíkar að maður gæti haldið að þær ættu upphaf sitt í tveimur mismunandi bókum. Ekki að það komi svo sem að sök því íslenska þýðingin verður bara þriðja afbrigðið af þessari bók. Það kallar maður skapandi þýðingu og íslenska versjónin verður margfalt betri en sjálf japanska útgáfan. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.