Þrenningin Halla, Pétur og Ævar

Ég hugsa stundum um þau sjaldgæfu og sérstöku andartök þegar maður allt í einu verður fyrir einskonar höggi  eða bylgju innilegrar gleði, nánast hamingju og þá oft yfir litlum atvikum. Ég man eftir frásögn Lars Saabye um göngutúr upp brekku í litlu, frönsku sjávarplássi. Hann settist á bekk upp á hæðinni og horfði yfir höfnina. Enginn var á ferli en úr  fjarska heyrðist hundgá og þá allt í einu veltur hún yfir hann þessi djúpa sælukennd: Ohh hvað ég er hamingjusamur.

Murakami á aðra svona frásögn. Hann var staddur á kappleik í baseball og  sat á áhorfendapöllunum. Allt í einu slær einn keppandinn draumahögg. Maður þekkir hljóðið þegar kylfan hittir boltann hreint. Dunk, þetta fallega hola hljóð. Og þá kom hún, sælubylgjan og Murakami hugsaði: Ohh hvað ég er hamingjusamur.

Í gær kom ég heim frá vinnu um hálf fimm. Venjulega á ég annríkt eftir vinnu, eða þannig. Það þarf að kaupa í matinn, ganga frá innkaupum, byrja að búa til kvöldmat, borða og ganga frá kvöldmatnum og skyndilega er klukkan að verða átta og maður hefur ekki gert annað en að stússa. Ekki að ég telji skrefin mín, ég geri þetta með ánægju. En í gær var ég eitthvað svo lúinn að ég hugsaði með mér að ég legg mig aðeins á sófann og held áfram að hlusta á útvarpsþátt sem ég hafði haft í eyrunum á leið frá vinnu. Þetta geri ég aldrei (ég er alinn upp í lúthersku: maður á ekki að hafa það of gott). Pétur Gunnarsson, Ævar Kjartansson og Halla Kjartansdóttir sátu og spjölluðu um íslensku,  íslenskukennslu, bókmenntir og nútímann. Einhver hafði bent mér á þennan útvarpsþátt og sagði að það væri gaman að hlusta á þessa þremenninga því þeir væru svo fullir af mannúð. Þetta fannst mér bæði athyglisvert og fallega sagt. En ég lagðist sem sagt á sófann og Sus byrjaði að stússa í eldhúsinu við matarundirbúning á meðan.

Þarna lá ég gersamlega afslappaður með hátalara í eyrunum, fjarri öllu og öllum nema sjálfum mér og hlustaði á þessa góðviljuðu einstaklinga spjalla. Búmm, allt í einu kom hún, sælukenndin: Ohh hvað ég er hamingjusamur. En mitt í þessu sæluskýi byrjaði sírena reykskynjarans í eldhúsinu að flauta og þannig var ég rifinn upp úr sófanum til að redda ástandinu í eldhúsinu.

Í gærkvöldi fór ég á Louisianasafnið til að hlusta á geimfarann Scott Kelly tala um 340 daga dvöl sína í geimnum. Þegar við komum inn á safnið í gærkvöldi var þar alger ringulreið, langar biðraðar fólks og reiðilegar raddir sem vildu fá að komast inn til að hlusta á geimfarann en það var því miður gersamlega uppselt … Við höfðum sem betur fer fengið boðsmiða (bók Scott Kelly var að koma út á dönsku en við keyptum réttinn á bókinni áður við hættum með forlagið, þess vegna var okkur boðið.)

Scott Kelly er lítill maður og verkar ekki sérlega áhugaverður við fyrstu sýn en frásögn hans um veru hans í geimnum, um glímuna við þann vanda að halda lífi í geimsstöð, var mjög áhrifarík. Geimstöðin í sjálfu sér er verkfræðilegt kraftaverk. Að komast upp í geimstöðina og aftur niður er  annað kraftaverk og niðurstaða hans eftir þessa daga upp í himninum er að nánast allt er hægt ef viljinn til verksins er nógu sterkur.

Í kvöld tek ég á móti Palla Stef. Heimsókn frá Íslandi er alltaf skemmtileg.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.