Heimsókn ljósmyndara og ævintýri Audi-eiganda

Kominn til vinnu eftir jóga og búinn að skila Palla Stefáns út í danska náttúru til að taka myndir. Það var gaman að fá heimsókn frá ljósmyndaranum sem endaði með að gista hjá okkur í höllinni. Hann var svo rifinn á fætur fyrir allar aldir, að eigin ósk. Þegar ég vakti hann í morgun leit hann ekki út fyrir að vera maður sem langaði rosalega mikið að vakna og fara út að leika. En hann spratt þó á fætur og fór strax að athuga birtuna úti eins og sannur ljósmyndari.

Í morgun barst mér svo frábærlega óvæntur pakki. Með lakkrís og bók. Fólk er gott við mig og það er yljar manni aldeilis um hjartaræturnar.

En nú er ég kominn í undarlegt verkefni með Davíð, mínum mikla bílaáhugamanni. Hann hefur suðað í okkur að fá okkur nýjan bíl, helst Tesla-bíl og hefur meira að segja tekist að draga okkur með inn í Kaupmannahöfn til að prufukeyra slíkan bíl. Ég er enginn áhugamaður um bíla en ég vil endilega styðja þennan áhuga Davíðs. Fer því og prufukeyri bíla með honum. Mér þótti Tesla-bíll ekki næstum því eins góður bíll og okkar ágæti Audi-bíll og það hef ég sagt litla stráknum mínum. Ef ég eignast einhvern tímann annan bíl þá langar mig í annan Audi, segi ég. Og nú er hann búinn að flækja mömmu sína í eitthvað plott. Skyndilega hefur Audi-umboðið hér í Danmörku boðið okkur að fá lánaðan einhvern voðalega fínan Audi og keyra á honum  yfir helgina.

Sus hefur því pantað gistingu á krá á Fjóni og þangað keyrum við í dag og gistum á Falsledkro eftir að hafa keyrt einhvern ægilegan Audi-sleða þvert yfir Sjáland og alla leið til vesturhluta Fjónar. Ég held að Davíð dreymi um að við kaupum þennan bíl en það veður ekki á minni vakt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.