Út um bílrúðuna á bílnum mínum fylgdist ég dágóða stund með manni í rauðum jakka á hlaupum meðfram strandlengjunni hérna fyrir neðan götuna mína. Það var eins og hann væri alveg að niðurlotum kominn, hlauparinn, hvert skref var ofurmannleg raun. Ég hef ekki hlaupið langhlaup lengi, ég spara mig fyrir fótbolta og tennis. En þessi sýn af hlaupara í angist var ekki hvatning til að taka fram hlaupaskóna á ný. Þetta minnti mig eiginlega á tvennt: að ég ætla ekki að fara byrja að pína mig aftur út í langhlaup, frekar geng ég, spila fótbolta og tennis. Hitt sem þessi þjáði hlaupari minnti mig á var hinn frábæri bókatitill: The Loneliness of the Longdistance Runner. Ég hef aldrei lesið bókina en titillinn hefur alltaf heillað mig.
Annar bókatitill er ógleymanlegur Die Angst des Tormanns beim Elfmeter (Ótti markvarðarins við vítaspyrnur) Peter Handke skrifaði þessa bók árið 1970 og ég hef margoft hugsað að þá bók verði ég að lesa. En það hef ég aldrei gert.
Ég heyrði í einum af mínum góðu vinum í gær. Hann sagði mér frá nokkuð fyndnu atviki sem vakti athygli hans. Ég sagði honum að ég hefði ekkert heyrt um þennan tiltekna atburð og þá svaraði hann með setningu sem kom mér töluvert á óvart: „Þetta var á Facebook. Miðlinum sem þú hatar svo mikið!“ Ha? Hata ég facebook? Það geri ég ekki. Ég nota bara ekki sjálfur facebook og leiðist miðillinn.
Ég hef ekki áhyggjur af facebook, símum og öllum þessum vopnum sem fólk ber í dag svona almennt. Áhyggjur mínar snúast bara um sjálfan mig, fjölskyldu mína og börnin mín sem elska símana sína svo heitt. Ég nota ekki svo sterkt orð að ég hati síma sem svelgir í sig athygli og nánd fólks, en mér leiðist þegar samvera fólks snýst um að hver um sig grúfir sig ofan í símtólið sitt. Ég verð bæði kvíðinn, áhyggjufullur, leiður, finn fyrir einhverjum hræðilegum dauða inni í mér… En ég styð hvern þann sem finnst síminn sinn æðislegur og veitir ríkidæmi inn í líf hans.
En sennilega er komið að því, tíminn er runninn upp, að fólk líti heiðarlega á notkun sína á tækni, félagsmiðlum, símum, tölvum. Hvernig notum við þessa tækni. Hvað gefur hún okkur og hverju rænir hún okkur? Að komst hjá sjálfsblekkingu í þessu efni er kannski ekki auðvelt. Að fara ekki í varnarstöðu gagnvart eigin notkun er líka erfitt. Maður þarf að spyrja sjálfan sig hvað er tækið í vasanum að gera gott fyrir náin samskipti mín við mína nánustu. Fyrir athyglisgetu mína? Einbeitingu? Er þetta tæki að gera eitthvað gott fyrir samfélagið? Kannski ekki. Ég bara spyr, þarf maður að vera tengdur internetinu 25 tíma á sólarhring? Þurfa lítil börn síma? Viljum við að börnin, eins og við sjálf, séum háð þessu tæki og þrói sína eigin þráhyggju í kringum símann. Sennilega er gott að hugsa um þetta. En Facebook hata ég ekki, allir mega hafa gaman af facebook mín vegna, þótt ég sjálfur þoli ekki þennan miðil. Ég verð bæði kvíðinn, áhyggjufullur, leiður, finn fyrir einhverjum hræðilegum dauða inni í mér… öll þessi örvæntingarfulla leit að klappi á bakið. Tæknifyrirtækin eru orðin ansi valdamikil, stjórna ansi miklu með “likeholisma” sem þau ýta undir, nýta sér með allri sinni færni og ég held að það væri gott að maður hugsaði sinn gang.
Ég las einu sinni bók um starfsemi spilavíta og hvernig hugbúnaður spilakassanna hefur verið fullkomnaður til að halda fólki að. Niðurstaðan er að fólk sem stundar spilavítin stendur stundum sólarhringum saman við spilakassa sína. Það þorir ekki að stoppa af því að stóri vinningurinn er bara rétt handan við hornið. Fólk pissar í sig, kúkar í buxurnar standandi fyrir framan spilakassana. Framleiðendur og stjórnendur spilavítanna hafa þróa hinn fullkomna hugbúnað til að stýra veikgeðjuðu fólki. Litlir vinningar, lítil like, koma á réttum tíma til að hvetja fólk áfram þar til það er bæði búið að missa piss og kúk í buxurnar og vitið úr höfðinu. Stundum hugsa ég um þetta þegar ég sé hvernig facebook togar í fólk.
ps. ein af afleiðingum framgang tæknifyrirtækja eins og Apple, Google, Netflix, Spotify, Facebook … er að framleiðendur efnis (content) rithöfundar, kvikmyndaframleiðendur, handritshöfundar, tónlistarmenn verða fátækari og fátækari á meðan þessi stóru tæknifyrirtæki sópa til sín stærri hluta kökunnar. Það var nú bara það.