Fred Bass og óvenjulegur sjúkdómur hans

Þegar ég er í New Yorkborg, þar sem allt er svo stórt og mikið, verð ég alltaf jafn undrandi yfir hve fáar bókabúðir eru í borginni. Það eru nokkrar andlausar Barnes & Nobles bókabúðir á víð og dreif en annars er fátt um fína drætti. Strand bókabúðin á horni 4th avenue og 12 strætis er eins og vin í eyðimörkinni. Þar eru margar bækur. Sennilega hafa fáir í heiminum handfjatlað jafn margar skruddur og Fred Bass, eigandi Strand-bókabúðarinnar. Hann hefur starfað í búðinni frá því að hann var þrettán ára gamall og þar til hann dó í síðustu viku áttatíu og níu ára gamall.

Á þessum 76 árum í bókaviðskiptum hefur hann sennilega náð að skapa þekktustu bókabúð, og fornbókabúð, í heimi. Eins og öll góð amerísk viðskiptaævintýri byrjaði sagan um Fred Brass og The Strand á auðmjúkan hátt. Faðirinn, Benjamin Brass var bláfátækur innflytjandi frá Litháen. Árið 1929 opnaði hann litlu bókabúðina sína af litlum efnum. Fred, sonurinn var þá 1 árs og það voru harðindi í bandarísku efnahagslífi.

Búðin gekk illa, fáir keyptu bækur því kreppan hafði lagst þungt á þjóðina. Benjamin neyddist til að senda soninn, Fred og systur hans, tímabundið í fóstur. En bókabúðin slapp lifandi í gegnum kreppuna. Þegar Fred náði táningsárum byrjaði hann að vinna við hlið föður síns í The Strand. Og hann var heillaður af starfinu: „Þetta er eins og sjúkdómur. Ég varð bara að vera í búðinni, þar leið mér best.“

Faðirinn ráðlagði Fred þó að leita sér að öðru starfi, framtíðin væri ekki í bókabúð en Fred gat ekki hugsað sér að hætta og þrjóskaðist við. Árið 1956 tók hann við keflinu af föður sínum. Hann var stórhuga og flutti verslunina á horn 4th avenue og 12 strætis þar sem áður hafði verið fataverslun.

Og nú byrjaði ballið. Lagerinn sem var um það bil 70.000 bækur óx á brjálæðislega stuttum tíma upp í 2.500.000 bóka og slagorðið fæddist: „18 miles of books.“ The Strand varð stærsta bókabúð heims.

Og búðin stækkaði, hæðin fyrir ofan var nú leigð undir bækur og líka kjallarinn. Sjálfur stóð herra Fred alla daga stoltur við búðarkassann í jakka og vesti. Keypti og seldi bækur. En ekki var allt jafn létt og leikandi fyrir bóksalann. Á áttunda áratungum herjaði svo mikill glæpafaraldur í New York að Fred þorði ekki á að fara í bankann eftir lokun af ótta við árásir glæpamanna þannig að hann varð að fela peningana í búðinni. Og hann valdi Ódysseif eftir James Joyce til að standa vörð um fjármunina og peningapokinn var alltaf falinn bak við þessa miklu skáldsögu Joyce.

Eftir því sem búðin stækkaði fjölgaði líka þeim sem vildu vinna í búðinni. Fred bjó til sína eigin starfsmannapólitík. Í hverri viku sóttu um það bil 60 manns um vinnu hjá The Strand og Fred útbjó próf til að skilja sauðina frá höfrunum. Prófið var nefnilega bókmenntapróf; umsækjendur skyldu tengja saman 10 sígilda bókatitla við 10 rithöfunda. Þetta var einföld aðferð og aðeins þeir sem höfðu 10 rétt svör komu til greina sem starfsmenn The Strand. Starfsfólkið skyldi vita eitthvað um bækur og skáldskap ef það skyldi starfa í stærstu bókabúð heims.

Bókabúð Fred Bass lifði ekki bara af því að selja bækur til lesþyrstra bókabéusa. Fred sérhæfði sig líka í að hjálpa ríkum New Yorkbúum að skapa sitt eigið bókasafn. Fólk sem keypti stórar íbúðir eða hús með innbyggðum bókahillum hringdu bara í Fred sem valdi svo hinar réttu bækur fyrir hillurnar. Stundum höfðu kaupendur óskir um sérstakt efni og stundum um sérstaka litasamsetningu á bókarkjölunum. Fred reddaði því.

Síðustu 12 ár hefur Nancy, dóttir Freds staðið fyrir rekstri búðarinnar og Fred hefur fylgst með frá hliðarlínunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.