Ég sit á bekk og það er hundur við hliðina á mér. Hvítur Tinnahundur sem hefur villst af leið og veit ekki hvar hann á heima. Hundurinn situr stilltur við fætur mér og hefur ekki hugsað sér að færa sig. Hann heldur að ég geti bjargað honum en ég er bara að prófa að sitja á þessum brúna harðviðarbekk sem er á leið minni til vinnu. Það er dimmur morgunn enda klukkan bara rétt rúmlega sjö og ég er ekki að flýta mér. Ég hef ákveðið að sitja hérna á bekknum og hlusta á útvarp. Ég gef mér tíma, framtíðin kemur til mín í stað þess að ég elti hana uppi. Ég er búinn að finna glufur í tímanum.
Mér þykir leiðinlegt að segja það en ég er að hlusta á útvarpsþáttinn Lestina. Nú veit ég að Eiríkur verður brjálaður ef hann les þetta því að ég nefni þáttinn hans enn einu sinni hér í koddabókinni eins og dagbækur eru stundum kallaðar. Sorry, en ég er bara að lýsa augnabliki og einmitt á þessari stundu hlusta ég á útvarpið, ekki vil ég falsa mynd af andartaki. Það liggur rafmangssnúra sem flytur hljóð frá símanum mínum upp til eyrnanna. Ég klappa hundinum og reyni að hughreysta hann; segi honum á íslensku að bráðum komi einhver sem hann þekkir og taki hann með sér heim. Ég velti fyrir mér hvort ég eigi að endurtaka þetta á dönsku því hundurinn, sem væntanlega hefur búið alla sína ævi í Danmörku, á örugglega auðveldara með að skilja dönsku en íslensku. Ég reyni að bægja þessari vitlausu hugsun frá en læt mig svo hafa það og endurtek setninguna á dönsku. Ég er ekki frá því að í augum hundsins bliki skilningsglampi.