Minnismerki gleymskunnar

Ekkert er eins fallegt í þessum heimi og vinskapurinn og ljóðið, heyrði ég unga konu segja við félaga sinn um daginn. Þetta hefur setið í mér og ég hafði velt því fyrir mér að ég ætti kannski að gera lista yfir það sem mér finnst fallegast í heimi. Bæði vinskapurinn og ljóðið verða með í upptalningunni. Þegar ég íhugaði listann kom fyrst af öllu upp mynd af pabba mínum, þá orðinn gamall og veikur, þar sem hann sat í stólnum sínum í stofunni heima í Álftamýri. Það var ekkert annað að gerast en að pabbi minn sat í þessum græna stofustól og horfði fram fyrir sig.

Þessi hugsun vakti aðra hugsun; kannski ætti ég heldur að gera lista yfir þá hluti sem ég man um pabba minn því allar þær góðu myndir sem ég hef af honum á meðan hann lifði hverfa eins og annað. Og þann lista gerði ég í huganum.

Hérna á skrifstofunni hefur hangið teikning á tölvunni minni í marga mánuði, sennilega í meira en ár. Ég er löngu hættur að sjá teikninguna og núna er ég búinn að gleyma hvað ég var að teikna. Ég hef óljósa hugmynd, þokukennda hugmynd, en ég hef ákveðið að leyfa teikningunni að hanga áfram á tölvunni sem minnismerki um allt sem drukknar í hinni þykku þoku gleymskunnar.

IMG_0779
Minnismerki um alla þá hluti sem hverfa í gleymsku

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.