Aðeins skoðanabræður velkomnir

Hér í Danmörku eru stórtíðindi á bókamarkaðinum. Nýr forstjóri hefur verið ráðinn til Gyldendal, stærsta bókaforlags landsins, Morten Hesseldahl. Morten hefur áður verið forstjóri Lindhardt og Ringhof, hann hefur verið forstjóri Konunglega leikhússins og svo nú forstjóri Gyldendal. Morten er nokkuð þekktur fyrir frjálslyndar skoðanir sínar og hefur ekki alltaf verið sammála hinni vinstrisinnuðu menningarelítu hér í landi. Viðbrögðin við ráðningunni eru sterk. Carsten Jensen, einn af þungavigtarhöfundum hér í landi, ákvað á sömu sekúndu og tilkynnt var um hinn nýja forstjóra að yfirgefa Gyldendal skútuna. Hann gat ekki lengur verið höfundur hjá Gyldendal sem hefði ráðið svona hægrisinnaðan forstjóra.

Ég varð satt að segja hissa á þessu. Og er yfirleitt hissa á fólki sem getur ekki verið í sama húsi og fólk með andstæðar skoðanir. Ég átti til dæmis mjög erfitt með að skilja forlög og höfunda sem neituðu að taka þátt í bókamessunni í Gautaborg eftir að nýnasistar fengu bás fyrir tímarit sitt þar. Maður hefur enga samúð með nýnasistum en mér finnst að maður neyðist til að láta málfrelsið njóta réttar síns, ekki bara þegar maður er sammála. Að yfirgefa forlag vegna þess að maður fær ekki skoðanabróðir sinn í forstjórastólinn finnst mér ógeðfellt.

Það er auðvitað gott að fólk taki afstöðu, það er nauðsynlegt. En maður verður líka að gera sér grein fyrir því að maður er ekki óskeikull, að manni gæti skjátlast og aðrir gætu haft rétt fyrir sér. Því er gott að skiptast á skoðunum og sá hefur rétt sem hefur bestu rökin. Mér verður stundum hugsað til þess hvað rökræðan, til dæmis í pólitík, er fjarri.  Það er slegið og svo er slegið á móti. Kastað skít og kastað skít á móti.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.