Ég fékk óvænta upphringingu í gær í miðjum kvöldmat. Þegar ég leit á símann og sá að um íslenskt númer var að ræða hikaði ég örlítið; ætti ég að svara eða ætti ég láta það vera. Ég er svo sem ekki vanur að láta trufla mig í miðjum matartíma. Þar að auki hafði ég virðulega gesti sem voru nýsestir hjá mér og fullir af fjöri. Ég ákvað að láta símtalið eiga sig og sneri mér að gestum mínum.
Það liðu ekki nema fimmtán mínútur og aftur hringdi síminn minn (ég hafði tekið hringihljóðið af en ég fann hvernig hinn ameríski iPhone titraði í vansanum mínum). Ég leit laumulega á skjáinn og sá að þetta var sama íslenska númerið og fyrr um kvöldið. Þrátt fyrir örlítinn óróleika í sálinni yfir þessum hringingum frá ókunnugu númeri, meira að segja ókunnugu íslensku númeri lét ég eiga sig að svara. Kvöldið leið og allir voru glaðir og ég hafði alveg gleymt hinni íslensku upphringingu. Klukkan var að nálgast miðnætti þegar ég fann enn á ný símann titra í vasanum. Iceland calling. Ég ákvað að svara. Gekk út úr eldhúsinu og skildi gesti mína eftir í umsjá Sus. Enginn virtist taka eftir að ég hvarf úr selskapnum.
„Gott kvöld.“ Er sagt dimmri karlmannsröddu.
„Gott kvöld,“ svara ég.
„Fyrirgefðu hvað ég hringi seint, ég heiti N.N. og ég var að hlusta á þig í sjónvarpinu og langar aðeins til að skamma þig.“
„Hlusta á mig í sjónvarpinu …?“
„Já, þannig er nú mál með vexti …“
„Fyrirgefðu. Áður en þú heldur …“
„Nei, hlustaðu á mig…“
„Bíddu aðeins …“
„Nei, hlustaðu. Þetta tekur bara í tvær mínútur… Ég vildi bara segja þér svolítið.“
„Heyrðu… ég hef ekki verið í sjónvarpinu.“
„Er þetta ekki Snæbjörn?“ Það er undrun í rómnum
„Jú.“
„Ert þú ekki stundum í Kastljósinu?“
„Kastljósinu? Nei. Aldrei. Eða … ég veit ekki til þess. Ég bý úti í Danmörku og sé ekki Kastljós.“
„Ó, fyrirgefðu ég hef þá hringt í rangan mann …“
„Já, blessaður.“
Ég hef enn ekki komist að því hvað maðurinn var að tala um. Augljóslega hefur einhver Snæbjörn sagt einhverja bölvaða vitleysu í Kastljósi. En það var ekki ég: Manninum í símanum var að minnsta kosti mikið niðri fyrir og eitthvað lá honum þungt á hjarta.