Það hrúgast á mig verkefnin þessa dagana og ekki kvarta ég svo sem yfir því. Í fyrradag hringdi til mín ung, dönsk kona sem talaði bæði blíðlega og af mikilli kurteisi og spurði hvort ég gæti aðstoðað sig við lítið verkefni. Ég kannast við konuna enda vinnur hún hjá einu af dönsku forlögunum og ég hef hitt hana við nokkur tilefni. Erindi hennar var einfalt; hvort ég gæti lesið bókina sem hafði unnið Hin íslensku bókmenntaverðlaun í síðustu viku; Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur. Gyldendal, stóra forlagið hér í Danmörku, hefði líka fengið auga á bókina. Þessi áhugi á bókinni kviknar eingöngu vegna bókmenntaverðlaunanna.
Ég tók auðvitað að mér verkefnið, slíkum verkefnum hef ég oft sinnt hér í Danmörku og bæði tekist að stuðla að því að íslenskar bækur komist til danskra lesenda og vakið áhuga á höfundum sem kannski verða gefnir út seinna. Ég reyni að gefa heiðarlega mynd af verkinu í skýrslu minni til þeirra forlaga sem biðja um álit mitt. Ég byrjaði á bók Kristínar í gær og mér varð hugsað til samskipta minna við höfundinn, en ég gaf út fyrstu ljóðabók hennar hjá Bjarti um árið. Það var á þeim árum að mér fannst mikilvægt að Bjartur gæfi út sem flesta af efnilegri höfundum landsins. Á þessum árum komu Huldar Breiðfjörð, Steinar Bragi, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ingunn Snædal og fleiri til forlagsins. Ég náði aldrei að kynnast Kristínu Eiríksdóttur sérlega vel. Stundum eru samskipti höfundar og forleggjara á svo skrýtnum forsendum. Ef ég ynni sem forleggjari í dag á Íslandi væri ég allt annar forleggjari en ég var í þá tíð. Ég veit ekki hvort ég yrði betri eða verri en ég nenni bara ekki neinu kjaftæði lengur.
Ég hef líka tekið að mér fleiri þýðingarverkefni. Um helgina bættist nýtt verkefni við og eru þær orðnar nokkrar bækurnar sem ég þarf að klára að þýða á þessu ári, ég verð að halda vel á spöðunum. Það er gaman.
Og svo byrjar í dag forritunarnámskeið sem ég hef skráð mig á fyrir nokkru; Object-oriented programming in Python.