Það sem er sjálfvalið

Ég er að setja saman lista. Fyrir framan mig hef ég átta lista, hver á sínu blaði. Listi yfir það sem er sjaldgæft er kominn lengst. Á einn listann (listi yfir andstyggilega hluti) hef ég bara skrifað eitt atriði. Listana átta læt ég standa á borði á skrifstofunni minni sem ég nota ekki undir annað. Þarna liggja þeir, listarnir, með faðminn opinn og bíða þess að ég finni nýjan hlut eða nýtt atriði sem passar inn. Þegar mér kemur í hug eitthvað nýtt til að bæta á einn af listunum, stend ég upp, geng að borðinu, tek fram pennann minn og skrifa atriðið niður og læt fylgja stuttar skýringar á því af hverju þetta ákveðna atriði á heima akkúrat á þessum lista. Ég hef átta lista að velja í milli.

Í gær vann ég aftur langt fram á nótt. Ég sef ekki mikið því ég vakna líka snemma. Þetta hef ég valið sjálfur, enginn þvingar mig til að vinna lengi eða vakna snemma. Þegar ég opnaði augun rétt upp úr sex var næstum orðið bjart, það örlaði að minnsta kosti í dagsbirtuna. Ég var dálitla stund að vakna, lá undir sænginni og safnaði kröftum til að fara fram úr.

Á meðan kraftarnir komu hægt og rólega til mín varð mér hugsað til manns sem ég mætti á götu í gær. Ég hef oft séð hann og veit vel að hann er veikur. Hann stoppaði mig og dró upp ljósmynd af barni. „Þetta er barnið mitt,“ sagði hann og sýndi mér  mynd af glöðum, ljóshærðum dreng. Ljósmyndina leyfi hann mér bara að skoða í fáar sekúndur svo stakk hann myndinni aftur í vasann eins og hann vildi ekki að ég horfði of lengi á hana.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.