Brunaliðsmaður, ökukennari og forleggjari. Allir í vanda.

Í gær var slökkviliðsmaðurinn hér í litla heimabænum mínum, Espergærde, handtekinn.  Ég hef samúð með honum. Í Espergærde er sjaldan eldur, næstum aldrei, og starfið hlýtur því að vera afar dauflegt. Satt að segja sá ég slökkviliðsstöðina í fyrsta sinn í síðustu viku og hefði auðvitað átt að taka mynd af henni. Ég hafði ekki hugmynd um að  í bænum væri rekin slík starfssemi. Einn lítill, rauður slökkviliðsbíll með hvítan stiga á þakinu stóð með opnar dyr fyrir framan gulmálaða slökkviliðstöð. Svona slökkviliðsstöð hæfir litlum bæ, hugsaði ég. Á stól við hlið brunabílsins sat sjálfur slökkviliðsmaðurinn – eini slökkviliðsmaður bæjarins – í regnjakka með hjálm á höfði og reykti sígarettu. Hann lék sér með kveikjara í höndunum. Æ, ég hefði átt að taka mynd.

Í gær bárust mér nefnilega þær fréttir að slökkviliðsmaðurinn hefði verið rekinn. Hann hafði gengið atvinnutengdan berserksgang. Í mörg ár mun hann átt í erjum við næsta nágranna sinn. Ekki veit ég hvað deilan gekk út á. Kannski tré sem kastar skugga sínum yfir nágrannagarðinn, eða ónæði að nóttu. Ég veit það ekki. En slökkviliðsmaðurinn fékk nóg af öllu í gær; starfi sínu og nágranna sínum því um hálffimmleytið keyrði hann af stað á litla slökkviliðsbílnum með blikkandi ljós og sírenur, lagði slökkviliðsbílnum fyrir framan nágrannahúsið, tengdi vatnsdæluna við brunahana í götunni og byrjaði að dæla vatni af mesta hugsanlega krafti á hús nágranna síns. Krafturinn var svo mikill að rúður brotnuðu og allt fór á flot inni hjá nágrannanum. Lögreglan var kölluð á vettvang og slökkviliðsmaðurinn var handtekinn. Hann var fullur mótþróa og var dreginn á brott og inn í lögreglubíl. Var mér sagt að hann hafi hrópað í sífellu: „Det brænder (það brennur).

Það gerðist líka í vikunni að eini ökukennari bæjarins var handtekinn. Hann var dauðadrukkinn undir stýri á leið að sækja nemenda í ökutíma. Mun hann hafa á ökuferð sinni brotið margar af þeim umferðarreglum sem hann minnti nemendur sína í sífellu á að virða.

Ég bíð bara eftir að lögreglan banki upp á hér á lestarstöðinni þar sem ég sit við þýðingarstörf og handtaki mig, gamla forleggjarann, fyrir alla mína lesblindu.

ps Ég fór á konsert í gærkvöldi í tónleikasal DR (ríkisútvarpsins hér í Danmörku) sem var byggður fyrir fáum árum. Konsertinn var góður og skemmtilegur og salurinn fallegur. Áður en ég fór inn í salinn átti ég leysa litla prófspurningu. Undir áhrifum hvaða málverks byggir litaval og bygging salarins? Þetta var skemmtileg spurning því það er eins og að ganga inn í málverk Munchs, Ópið að stíga inn í salinn. Hér er mynd sem kannski sýnir það.

IMG_0797 2

 

dagbók