Ég er auðvitað vonlaus. Þegar ég er á ferðlögum skiptir mestu máli fyrir mig hvaða bækur ég tek með. Undirbúningstíma fyrir útlandaferðir er varið í að finna réttar bækur. Ég hafði hlakkað til að lesa Vansæmd Coetzees aftur, ég hafði hlakkað mikið til og ég skynjaði gleðihormónin seytla út í kroppinn þegar ég sá sjálfan mig sitja undir arabísku sólinni og lesa bókina. En hvað? Mér tókst að gleyma bókinni í Danmörku. Hvernig ég fór að því veit ég ekki. Ég hrasa. Þar að auki tók ég þá undarlegu ákvörðun að skilja hleðslusnúruna fyrir iPadinn minn eftir. Af hverju? Ég veit það ekki. Nú þegar ég les svo mikið á iPadinum verður hann rafmagnslaus innan fárra klukkutíma. Ég les þó bók Kristínar Eiríksdóttur á símanum mínum, ekki það besta, en það dugir.
Ég er enn að huga um Marilynne Robinson og hennar bækur. Vísindin og Guð og sálin. Svona getur manni liðið þótt maður sé staddur í Arabíu. Ég fann það í gær að sálin hafði ekki alveg fylgt mér alla leið frá Danmörku. Það var augljóst þegar ég sat á bekk í sólinni, las Robinson og Sus kom og sagði, harla hróðug að hún hefði samið við bátseiganda um smásiglingu hér úti fyrir ströndinni. Ég fann að ég var bara alls ekki tilbúinn að sigla. Mér fannst ómögulegt að sigla sálarlaus. Við sigldum þó og það var ánægjuleg sigling.
Vísindin telja sig hafa sannað að fyrir utan víddirnar þrjár: hæð, lengd og breidd (eða fjórar taki maður tímann sem fjórðu víddina) finnast sjö aðrar víddir sem eru utan skynjunarfæris okkar. Þetta fannst mér merkilegt. Við höfum ekki orð til að lýsa þeim því við vitum ekki hvar og hvernig þær eru þessar víddir. En vísindin vilja samt ekki kannast við að manneskjan hafi sál? Vísindin skilgreina allt út frá þeim víddum sem við þekkjum (þessum fjórum) en vísindamenn telja sig þó hafa sannað að sjö víddir liggja utan við okkar þekkingarheim. Ég er ekki sálarlaus, ég fann það greinilega í dag. Það tók suma sálarhluta lengur að ferðast milli Danmerkur og Arabíu en það tók flugvélina (Airbus 380) sem flutti okkur hingað að fljúga sömu leið.