Ég vorkenni mönnunum

Já, Dubai og hér er ég. Stórkostlegt að hafa þau forréttindi að geta flogið um heim allan. En ég verð að viðurkenna að Dubai, land og þjóð, er ekki minn tebolli. Sennilega er Dubai Las Vegas Arabíu. Hér eru stórkostleg leiktjöld, mennirnir hafa verið að verki og byggt stórt og flott. Byggingar sem rísa hátt upp í himinninn í undarlegum sveigjum því í dag eru háhýsi ekki lengur ferköntuð.

En Númi og Davíð eru ánægðir að vera hér og þetta var draumur Núma.

Hér finnur maður ekki þjóðarsál. Ég hef satt að segja ekki hitt eina manneskju frá Dubai og ég hef talað við fullt af fólki sem býr hér og starfar: tvo frá Kenýa (barinn), eina konu frá Ítalíu (hótelmóttaka), einn frá Filippseyjum (maðurinn við tennisvöllinn), einn frá Sri Lanka (bátseigandinn),  þrjá frá Pakistan (leigubílstjóri, garðyrkjumenn) þrjá frá Indlandi…  Og hvað gerir maður í landi þar sem maður kemur ekki auga á þjóðarsálina? Maður dáist að verkum mannanna, byggingunum, tækninni, gosbrunnunum, vegunum, innanhússskreytingum… í gær þegar ég var inni í miðbæ Dubai brast á með miklu showi, gosbrunnar byrjuðu að sprauta upplýstu vatni og veggur hæstu byggingar heims byrjaði að blikka ljósum og skipta litum. Þetta var stórbrotið, ég var undarlega snortinn og þurfti að berjast við tárin því ég var svo hræður yfir nútímanum. Nútíminn getur verið svo dapurlegur í glæsileik sínum og ég vorkenndi mönnunum.

(Kannski minnkaði þörf fólks til að hugsa um andann eða sálina þegar Guð hvarf? Trúin á eitthvað afl fyrir utan mann sjálfan; dýrkunin á hinu góða og hinu skapandi utan og ofan við allt. Þegar trúarþörfin hverfur vex trúin á einstaklinginn. Dýrkunin á okkur sjálfum. Ég nefni þetta því ég fór allt í einu að hugsa um það sem ég heyrði einhvers staðar að sjálfsmynd á íslensku næði yfir tvennt í útlensku; selfie og identity. Ytri sjálfsmynd og hin innri sjálfsmynd (kjarninn) er runninn saman í eitt í íslensku. Hið ytra og hið innra er það sama. Maður er ekki lengur upptekinn af hinni dásamlegu meðvitund/anda, frekar af dramainu sem tengist kapphlaupinu við að halda okkur fyrir framan það sem við teljum að sé á hælum okkar. Hin gleðilausa pressa við að ná einhverju marki og inni þetta drögum við börnin okkar.

ps. milljónir manna hafa hlaðið niður einhverju appi sem ég veit ekki hvað heitir en þar er á einhvern hátt mælt hvar maður er glaðastur og hvar maður er ekki svo glaður. Niðurstöður voru birtar í síðustu viku og það kemur í ljós að mönunum finnst ekkert eins leiðinlegt og að vera í vinnunni, nema að liggja heima í veikindum. Ég vissi ekki að fólki liði svona illa í vinnunni sinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.