Hinn hvatvísi Pakistani

Það er sandþoka yfir Arabíu í dag. Sólin er undir sandslæðu og það blæs nokkuð kröftuglega. Í morgun keyrðum við af stað til næsta furstadæmis, Abu Dhabi. Okkur langaði að sjá moskuna þar, hvítu moskuna og svo höfðum við líka áhuga á að sjá nýja Louvresafnið í Abu Dhabi. Í fylgd með okkur var ungur maður, 25 ára Pakistani, hláturmildur og hvatvís. Hann var ökumaður okkar og allur á nálum sem endurspeglaðist í ökulagi hans sem satt að segja var óhefðbundið. (Ég hef til dæmis aldrei fyrr prófað að bakka á móti umferðinni á hraðbraut.) Á föstudaginn átti hann bókað flug heim til Pakistan (þangað hafði hann ekki komið í tvö ár) til að ganga frá trúlofun sinni með 17 ára stúlku sem hann hafði aldrei séð nema á mynd. Myndina sýni hann okkur með miklu stolti. Hann hlakkaði til.

Eftir bíltúrinn ætlaði hann að kaupa gullhring fyrir hana, tilvonandi eiginkonu sína. Hann hafði fengið lánaða peninga hjá vini sínum til að geta keypt hringinn. Hann var múslimi og stundaði trú sína af einlægri skyldurækni. Bað fjórum sinnum á dag, bragðaði ekki áfengi og las í hinni heilögu bók á hverjum degi. Hann ætlaði að vera góður eiginmaður og bjóða konu sinni aðeins upp á það besta. Hann hlakkaði mikið til.

Moskan var falleg. Olíufurstarnir nota peningana sína í byggingar skreyttar 24 karata gulli. Stórar byggingar. Og moskan var byggð úr hvítum marmara og súlurnar sem héldu uppi þakinu voru lagðar gulli. Allt var skínandi.

IMG_0941
Moskan í Abu Dhabi.  Allt hvítt og fallegt. Marmaragólf með marmarablómaskreytingu.
Það sama má segja um nýja Louvresafnið. Það var líka fallegt og örugglega mikið byggingarafrek þar sem þakið var í sjö lögum, byggð úr stjörnum með mismunandi lögun og í gegnum stjörnuskarann komst ljósið inn. Þetta var stórkostlegt.

ps mér tókst á undarlegan hátt að skrapa til mín kaffi með úlfaldamjólk á kaffistað í Abu Dhabi. Ég hélt ég hefði beðið um tvöfaldan espresso. Ég hrasa.

dagbók

Skildu eftir svar