Á árabát til Beckhams

Furstadæmið Dubai er undarleg stærð og ég viðurkenni að ég á erfitt með að skilja þetta allt hér. En ég er svo mikill Evrópumaður að það er ekki að marka mig. Hér er vafalaust fínt líf fyrir þá sem lifa fyrir gott veður, sól, logn, hita, strönd…  Mér finnst ekki verra þótt það snjói á mig og blási. Minn áhugi liggur annars staðar en í veðuraðstæðum

Hér fyrir utan ströndina, þar sem hótelið mitt liggur, er lítil eyja, auðvitað búin til af mönnum. Á eyjunni standa nokkur stór og fín hús sem ég get virt fyrir mér út um gluggann á hótelherberginu mínu. Þetta er eftirsóttur staður hef ég heyrt og hér hafa bæði David Beckham og Tom Cruise byggt sér hús. Þeir koma víst einu sinni á ári og njóta sólarinnar hér. Mætti ég heldur biðja um Vico del Gargano á Ítalíu, Mílanó, París, Róm, Basel, München … Ég var að velta fyrir mér hvor ég ætti að leigja mér árabát og sigla yfir til Beckhams til að ræða við hann um fótbolta eða hárgreiðslu.

En ég nýt þess að vera hér, sérstaklega að spila tennis og liggja og lesa. Ég er að klára bók Kristínar Eiríksdóttur, ég get vel sagt eitthvað fallegt um hana við dönsku útgefendurna sem vilja heyra hvað mér finnst.

Í kvöld ætlum við í óperuna hér í Dubai. Númi og Davíð eru ekkert sérlega spenntir, en ég hlakka til. Bæði að sjá arkitektúrinn, sem á víst að vera áhugaverður, og eins  til að hlusta á tónlistina þótt ég sé enginn sérstakur óperumaður.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.