Eintal inni í bókaskáp

Síðasti dagur í Dubai. Ég réri í gær á árabáti yfir til eyjunnar hans Beckham hérna á móti hótelinu mínu og fann húsið hans. Það var enginn heima og allt lokað og læst, háar girðingar og voldugt hlið. Mér var alveg sama ég hafði svo lélegan hárdag að ég gat varla látið hann sjá mig.

Las annars ansi skemmtilegt innlegg hjá ungskáldinu Berg Ebba inn á nýja vefsíðu sem fjallar um bókmenntir Bókaskápur Ástu. Þetta er í rauninni dúndur vel gert hjá unga manninum, sem mér finnst einn eftirtektarverðasti höfundur landsins um þessar mundir. Þetta er ekki bara skemmtilegt heldur er innleggið svo hressilegt og kröftugt, swing og djöfulgangur ofan í rómantík.

Ég flýg heim í nótt. Gaman að koma heim aftur en ég hef notið þess að vera hér. Til Dubai kem ég ekki aftur fái ég að ráða dvalarstað mínum framvegis. Þetta er ekki staður til að dvelja á lengur en í viku. Þetta er ruglstaður.

Við Númi spiluðum tennis í morgun. Hingað til höfum við ekki spilað einliðaleik nema einu sinni þar sem Númi vann hálfan leik 3-2. En nú spiluðum við alvöruleik og ég hafði gífurlega þörf á að vinna. Ég byrjaði hörmulega var undir 0-4 en náði að taka mig á og vann að lokum 7-5. Ég segi það satt að ég varð bara að vinna þennan leik.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.