París Hilton er vinsæl… eða?

Flugvélin sem flytur mig til Danmerkur er stór. Númi segir mér að hún heiti Airbus 380, flugvélin, og tekur örugglega 300 farþega því hér í hliði númer 21 á flugvellinum í Dubai er múgur og margmenni á leið til Kaupmannahafnar. Hér er næstum nótt að minnsta kosti eldsnemma morguns. Klukkan er hálfsex og það er enn dimmt úti á flugvélaplaninu.

Það er erfitt að finna sæti hér við hliðið en ég sá lausan stól inn á milli allra þessara fjölmörgu ferðafélaga minna. Þeir sem sitja í kringum mig eru flestir eldri en ég, gráhærðir, settlegir borgarar. Konurnar lesa bækur. Karlarnir hafa hendur krosslagðar á bumbunum sínum eða leysa einhverjar þrautir í símunum sínum.

Ég var nýsestur þegar ein af dönsku konunum, sem situr hér mér á vinstri hönd,  gefur frá sér hvellt ýlfur. Allir í kring litu upp til að sjá hvað amaði að konunni. Hún hélt á þykkri bók og lyfti henni upp til að sýna sessunaut sínum bókina. Það var uppgjöf í svip hennar.
„Þetta er svo pirrandi,“ segir hún nokkuð hátt þannig að samferðarmenn hennar geti heyrt og allir horfa á hana og bíða eftir skýringu á hvað sé svona pirrandi. Svo lyftir hún bókinni enn hærra og sýnir okkur í kringum sig að það er búið að rífa eina síðu úr bókinni og hún er rétt að klára þykka bók sem ég sé ekki hvað heitir. „Þetta er svo pirrandi. Akkúrat hér þarf ég að vita hvað gerist í bókinni!“ Konan við hliðina á mér hvíslar að manni sínum: „Þetta er bókin Konan á klettinum. Ég hef lesið hana.“

Svona smádrama fyllir hugi fólksins í kringum mig við hlið 21. Ég er aftur á móti en hissa á sjálfum mér því  niður á milli nærbuxnanna í ferðatöskunni fannstí gærkvöldi bókin sem ég hafði ætlað að lesa í Dubai, Vansæmd eftir Coetzee. Ég sem hélt að ég hefði gleymt henni heima í Espergærde en svo var hún ofan í tösku. Ég er alger fálki.

Nýja bókmenntasíðan Bókaskápurinn virðist vera ansi vinsæl því fréttir berast alla leið hingað til Dubai af mikilli traffík inn á síðuna. Þeir virðast trekkja þeir Jón Kalman, Elena Ferrante, Bergur Ebbi og Bergsveinn Birgisson. Ég minnist á þetta þar sem mér verður oft hugsað um hæfileikalausu barnastjörnuna sem var svo vinsæl að það var alltaf verið skrifa um hana í fjölmiðlum. eða var það öfugt að hún var svo vinsæl af því að það var alltaf verið að skrifa um hana. Hét hún ekki París Hilton? Hvað var það aftur sem hún var svo góð í? Sömu lógik má kannski nota um bókmenntir þær verða vinsælar þegar um þær er skrifað. Bókmenntir eru vinsælar og þess vegna eru þær viðfangsefni fjölmiðla.  Bókaskápurinn er þess vegna svo ágæt viðbót við hin fjörlegu og sprúðlandi bókmenntaskrif fjölmiðla á borð við Morgunblaðið, Fréttablaðið og allar hinar góðu, íslensku fréttaveiturnar sem fjalla um hið vinsæla efni bókmenntir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.